Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja flytja út ísfirskt vatn í skipsförmum

19.09.2016 - 12:22
Mynd með færslu
Ísafjörður á að sjálfsögðu fulltrúa í sameiningarferlinu Mynd:  - bb.is
Kanadískt fyrirtæki hefur óskað eftir því að fá einkarétt á útflutningi vatns úr vatnsveitu Ísfirðinga og flytja það út í skipsförmum. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að fyrirtækið hefji rannsóknir á vatninu.

Getur afhent 300 sekúndulítra

Kanadíska fyrirtækið Amel Group hefur óskað eftir því að nýta vatn úr vatnsveitu Ísafjarðarbæjar til útflutnings. Talið er að Ísafjarðarbær geti afhent meira en 300 sekúndulítra af vatni en ef þeir væru fullnýttir eru það um 10 milljón tonn á ári. Fyrirtækið hefur hug á því að nýta til verkefnisins Panamax skip, eða skip sem er í þeirri allra stærstu gerð sem kemst um Panamaskurðinn.

Réttindi nái ekki til þess vatns sem bærinn þurfi á að halda

Í viljayfirlýsingu bæjarstjórnar og forsvarsmanns kanadíska fyrirtækisins kemur fram að kanna þurfi magn þess vatns sem er mögulegt til útflutnings. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir umrædd réttindi ekki ná til þess vatns sem bærinn þarf á að halda til uppbyggingar á byggð og atvinnulífi til framtíðar. Hann leggur áherslu á að verkefni sem þetta hafi ekki neikvæð áhrif á sjálfbærni sveitarfélagsins.

Möguleiki á samningi til 25 ára

Ef fullnægjandi niðurstöður fást úr rannsóknum fyrirtækisins fyrir bæði kanadíska fyrirtækið og Ísafjarðarbæ er gert ráð fyrir að gerður verði samningur til 25 ára. Ekki er ljóst hvaða áform kanadíska fyrirtækið hefur fyrir vatnið. Gísli Halldór leggur áherslu á að burtséð frá þessu verkefni þá sjái bæjarfélagið fram á bjarta framtíð og muni ekki hengja vonir og framtíð þess við þetta verkefni.

Einkaréttur á útflutningi hjá Köldulind

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fyrirtæki óskar eftir því að kaupa vatnsréttindi Ísfirðinga þar sem fyrirtækið Kaldalind er nú með einkarétt á útflutningi vatns Ísfirðinga árið og stóð til að vatn yrði flutt út í risastórum plastblöðrum í gámum. Ekkert hefur orðið af þeim áformum. Kaldalind hefur einkarétt til loka september 2017 og er því ljóst að kanadíska fyrirtækið fær ekki réttindin fyrr en samningurinn við Köldulind rennur út.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður