Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja fá myndefni af Klaustri frá Persónuvernd

05.02.2019 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins sendi Persónuvernd erindi í síðustu viku þar sem hann fór þess á leit að stofnunin aflaði myndefnis sem sýndi mannaferðir fyrir utan hótelið Kvosina og veitingastofuna Klaustur. Hann óskar eftir því að fá myndefnið og að þingmönnunum verði veittur kostur að tjá sig um það áður en Persónuvernd tekur ákvörðun í málinu. Þá þurfi þingmennirnir að fá aðgang að myndefninu vegna dómsmáls sem þeir íhugi að höfða.

Þetta kemur fram í bréfi sem Reimar Pétursson, lögmaður þingmannanna, sendi Þórði Sveinssyni, skrifstofustjóra Persónuverndar, á föstudag.  

Vilja að lögð verði stjórnvaldssekt á Báru

Í bréfinu segir Reimar að þar sem ekki sé hægt að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar sé ekkert að vanbúnaði að Persónuvernd taki málið til afgreiðslu.  Í bréfinu er þess krafist að lögð verði stjórnvaldssekt á Báru Halldórsdóttur sem hefur viðurkennt að hafa tekið samtöl þingmannanna upp.

Reimar telur að Persónuvernd sé skylt að afla myndefnis úr eftirlitsmyndavélum hjá veitingastofunni Klaustri og hótelinu Kvosinni og nauðsynlegt sé að beita valdheimildum í þessu skyni.  Hann segir að í samræðum þingmannanna hafi komið fram margvíslegar upplýsingar um þá og viðhorf þeirra til manna og málefni „þótt þau hafi vissulega verið sett fram í hálfkæringi eða án alvöru.“ Bára hafi gengist við því að hafa tekið samtal þingmannanna upp, vistað hljóðskrárnar á vísum stað í síma sínum, yfirfært þær síðar á tölvu í sinni eigu og loks miðlað þeim til fjölmiðla. 

Reimar segir að málið ekki varða tjáningarfrelsi Báru heldur brot gegn friðhelgi einkalífs þingmannanna. Þeir kvarti ekki undan því að  Bára hafi tjáð sig um málið á opinberum vettvangi né að fjölmiðlar hafi birt fréttir byggðar á upptökunum.  

Telja frásögn Báru ótrúverðuga

Þá segir Reimar að frásögn Báru af því hvernig það kom til að hún tók upp samtölin sé ótrúverðug. Og að varhugavert sé að miða ákvörðun í málinu við frásögn hennar þar sem hún einkennist af ýmsum þversögnum.  Bára hafi varast að vekja eftirtekt og forðast að hægt væri að taka eftir aðgerðum hennar. 

Reimar bendir á að aðgerðir Báru hafi varað í fjórar klukkustundir sem sé gríðarlega langur tími. Tímalengdin gefi einn og sér til kynna að ásetningur til aðgerðanna hafi ekki aðeins verið styrkur heldur hafi tími til þeirra verið tekinn frá á kostnað annarra hluta.  „Tímalengd aðgerða gefur því sterklega til kynna að einhver skipulagning hafi verið að baki þeim.“ 

Þá segir Reimar að álykta megi að ásetningur Báru til upptökunnar hafi staðið til áður en hún kom á Klaustur. Hún hafi forðast athygli þingmannanna með því að taka sér gervi erlends ferðamanns og gert sér far um hegða sér sem slíkur.  Þannig hafi Bára greint frá því að hún hafi haft með sér bæklinga um innanlandsferðir og vinsæla ferðamannastaði þegar hún mætti á Klaustur og þóst lesa þá til að viðhalda leynd um aðgerðir sínar. Þetta gefi til kynna að hún  hafi verið búin að ákveða gervi sitt áður en hún kom á staðinn. Frásögn hennar að atburðarásin hafi orðið fyrir tilviljun standist illa skoðun.

Reimar nefnir sömuleiðis ljósmynd sem hafi verið tekin af þingmönnunum inn um glugga Klausturs snemma um kvöldið.  Hún hafi ekki verið tekin fyrir tilviljun. Hafi Bára tekið hana staðfesti það ásetning hennar til aðgerðanna frá upphafi. Hafi einhver annar tekið myndina gefi slíkt sterklega til kynna að einhver annar hafi vitað um aðgerð Báru og átt þátt í henni. 

Helga Þórisdóttir,  forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við fréttastofu að verið sé að huga að málsframvindu og það skýrist jafnvel í dag eða á morgun hver næstu skref verði.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV