Vilja ekki hleypa söngkonu Oyama inn í landið

Vilja ekki hleypa söngkonu Oyama inn í landið

28.02.2017 - 22:11

Höfundar

Bandarísk stjórnvöld vilja ekki hleypa Júlíu Hermannsdóttur, söngkonu hljómsveitarinnar Oyama, inn í landið en sveitin á að hita upp fyrir bandarísku indírokk-sveitina Foxing á tónleikum í Pittsburgh, Fíladelfíu, New York og Boston í næsta mánuði. Júlía hefur engar skýringar fengið af hverju hún fær ekki að koma því hinir liðsmenn sveitarinnar hafa allir fengið grænt ljós.

Merkilegt nokk var Júlía í námi í New York á árunum 2005 til 2011 og hefur þar að auki farið nokkuð reglulega í heimsóknir vestur um haf. Síðast fyrir tæpu ári á sama vegabréfi og hún er með núna - án nokkurra vandkvæða. „Þetta hefur alltaf gengið ljómandi vel. Ég hef aldrei lent í neinu veseni í Bandaríkjunum, hvorki brotið lög né verið handtekin.“

Júlía hefur heldur aldrei ferðast til þeirra landa sem nefnd voru í ferðabanni Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta. Sem er ekki lengur í gildi. Hún hefur engar skýringar fengið á því af hverju bandarísk stjórnvöld vilji ekki hleypa henni inn í landið. Og bandaríska sendiráðið vísaði henni á skrifstofu sem sér um svokallaða ESTA-heimild.  

Júlía segist hafa beðið í símanum í þrjár klukkstundir og náð loks sambandi við mann sem virtist vera frekar stuttur í spuna, að hennar sögn. Hann bað hana um númerið á vegabréfinu, sló því upp í kerfinu hjá sér og tilkynnti henni svo að hún mætti ekki koma til Bandaríkjanna. „Og að hann hefði ekki leyfi til að segja mér af hverju ég mætti ekki koma.“ 

Uppákoman hefur sett nokkuð strik í reikninginn því umboðsmaður Oyama hafði boðið fólki frá plötufyrirtækjum á tónleikana vestanhafs. Og Júlía viðurkennir að það hefði verið gott að hitta það fólk. Sveitin ætlar að halda krísufund á morgun til að ákveða næstu skref - hugsanlega verður lendingin sú að hinir í sveitinni fara út og reyna að koma tónlistinni til skila án söngkonu eða reyna að finna staðgengil. 

Júlía verður síðan væntanlega á sínum stað þegar sveitin fer til Bretlands eftir ferðalagið í Bandaríkjunum.