
Vilja ekki dragnótaveiðar inni á Skagafirði
Í nóvember 2017 heimilaði þáverandi sjávarútvegsráðherra veiðar með dragnót í Skagafiði sem þá hafði verið lokaður fyrir slíkum veiðum í nokkur ár. Ákvörðunin var studd þeim rökum að dragnótaveiðar hefðu sáralítil áhrif á lífríki sjávar í Skagafirði.
Ákvörðunin ekki borin undir sveitarstjórn
„Þessi ákvörðun var í rauninni ekkert borin undir sveitarstjórn, eða sveitarfélagið. Heldur var hún tekin án okkar aðkomu algerlega. Og við höfum gagnrýnt þetta, gerðum það þá strax og erum búin að gera það með reglulegu millibili,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar.
Vilja fund með sjávarútvegsráðherra
Sveitarstjórn hefur nú óskað eftir fundi með sjávarútvegsráðherra til að fara yfir þetta og Stefán segir að það verði að nást sátt um veiðar í firðinum. „Að finna einverja línu sem bæði smábátasjómenn og dragnótamenn gætu fallist á að væri hentug,“ segir Stefán.
Efast um þá fullyrðingu að dragnót skemmi ekki lífríkið
Smábátasjómenn hafa ítrekað ályktað gegn dragnótaveiðum í Skagafirði. Dragnót og veiðar smábáta geti aldrei farið saman í firðinum auk þess sem dregin er í efa sú fullyrðing að dragnótaveiðar hafi ekki áhrif á lífríki fjarðarins. Og Stefán vill að ákvörðunin frá 2017 verði felld úr gildi. „Og við teljum eðlilegt að færa dragnótina utar, til þess að vernda það lífríki sem er innar. Þannig að smábátasjómennirnir getir verið þar sem þeir hafa verið og voru áður en friðuninni var aflétt.“
Dragótaveiðar geti verið utan við ákveðna línu
En hann segir sveitarstjórn gera sér grein fyrir að það þurfi kannski ekki að banna dragnótaveiði á öllum Skagafirði. „En að menn setjist niður og reyni að finna einhverja miðlunartillögu, eins og ég segi, til að menn geti komið sér sama um einhverja línu sem væri þá friðun innanvið og dragnót utanvið, eins og var áður.“