Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja byggja almennar íbúðir á Norðurlandi

25.07.2016 - 13:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kári Gylfason
Búseti á Norðurlandi hefur óskað eftir samstarfi við þrettán sveitarfélög á Norðausturlandi um byggingu á almennum íbúðum. Markmiðið er að bjóða ódýrari íbúðir en eru á markaði í dag, bæði leigu- og eignaríbúðir.

Samkvæmt nýjum lögum um almennar íbúðir standa ríki og sveitarfélög saman að því að styrkja byggingu íbúða fyrir lágtekjufólk. Íbúðalánasjóður veitir stofnframlög ríkisins til að kaupa eða byggja slíkar íbúðir.

Veltur á vilja sveitarfélaganna

Búseti á Norðurlandi hefur nú sent erindi til allra sveitarfélaga frá Fjallabyggð austur að Langanesbyggð og óskað eftir samstarfi um þetta. „Við höfum semsagt fengið bréf frá Íbúðalánasjóði sem kynnir það að á næstunni sé auglýsing eftir formlegri styrkbeiðni,“ segir Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi. „Og það veltur á vilja sveitarfélaganna hvort sóst verður eftir slíkum byggingum í einstökum sveitarfélögum á landsbyggðinni."

Mikilvægt að ná fram hagkvæmni 

Benedikt segir mikilvægt að nýta samlegð af byggingum sem byggðar eru með stofnstyrkjum til að ná fram hagkvæmni í hönnun og gerð ódýrari íbúða en eru á markaði í dag. „Og auka þar af leiðandi framboð íbúða sem eru hagkvæmar fyrir það fólk sem á erfiðar á kaupendamarkaði og leigumarkaði sem hefur verið að hækka og hækka mjög hratt undanfarið," segir hann.

Bæði leigu- og eignaríbúðir

Til greina komi að selja hluta þeirra íbúða sem byggðar yrðu með þessum hætti. Til þess þyrfti samt lengri tíma, en styrktímabilið er fjögur ár. „Það er töluvert langt tímabil til þess að vinna í. Það er þá hægt að byggja íbúðir yfir lengra tímabil og dreifa þeim á stærra svæði með mjög auðveldum hætti," segir Benedikt.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV