Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja byggja 100 herbergja hótel á Kjalarnesi

09.01.2020 - 19:30
Mynd: ruv.is / ruv.is
Hópur fjárfesta hefur hug á að reisa eitt hundrað herbergja hótel á Kjalarnesi. Skammt frá, við rætur Esju, stendur til að hefja framkvæmdir við 50 herbergja hótel í haust.

Það eru Íslenskar fasteignir ehf. og Plús arkítektar sem standa að áformum um byggingu hótels í Nesvík á Kjalarnesi. Umsókn um nýtt deiliskipulag var lögð fyrir skipulagsráð Reykjavíkurborgar í vikunni. Fyrirtækin sjá fyrir sér að þarna rísi allt að 100 herbergja hótel auk 12 stakra húsa sem verði leigð út sem gistirými með þjónustu frá hótelinu. Umsóknin fer nú í umsagnarferli.

Borgin vildi ekki íbúabyggð

Skipulagsráð hafði áður hafnað umsókn um allt að 600 manna íbúabyggð á landinu þar sem það samræmdist ekki aðalskipulagi. Í því er gert ráð fyrir fjölþættri starfsemi í tengslum við ferðaþjónustu og afþreyingu. Hóteláformin samræmast því aðalskipulaginu.

Gunnar Thoroddsen hjá Íslenskum fasteignum segir í samtali við fréttastofu að hótel á þessum stað hafi mikla möguleika. Ferðamenn muni sækja í ósnortna náttúru og einstakt útsýni yfir Reykjavík. Margir afþreyingarmöguleikar séu í boði, til að mynda golfvöllurinn í Brautarholti. Kappkostað verði að byggja hótelið á þann veg að það falli vel inn í náttúruna.

Heilsuhótel við Esjurætur

Áform um byggingu hótels á Mógilsá við rætur Esju eru lengra komin og segir Hjalti Gylfason, einn þeirra sem standa að verkefninu, að deiliskipulagsferlið sé að klárast. Vonast hann til að framkvæmdir hefjist í haust við þriggja til fjögurra stjörnu heilsuhótel með um 50 herbergjum. Er fyrst og fremst horft til ferðamanna og hópa sem vilja njóta nálægðarinnar við Esjuna.

Framgangur verkefnanna er háður fjármögnun sem í báðum tilfellum er ólokið.

Magnús Geir Eyjólfsson