Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja breytingar á tollkvótum í búvörusamingum

30.08.2016 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Varaformaður og framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu skora á stjórnvöld að taka til endurskoðunar núverandi framkvæmd við úthlutun á tollkvótum fyrir lansbúnaðarvöru. Þeir harma það að atvinnuveganefnd Alþingis hafi ekki tekið tillögur samtakanna um breytingar á úthlutun á tollkvótum til skoðunar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum. Þar segir að tillögur atvinnuveganefndar um breytingar á búvörusamningum sýni lítinn vilja stjórnvalda til að auka samkeppni í landbúnaði. 

Fram kom í hádegisfréttum í gær að meirihluti atvinnuveganefndarinnar leggi til að fella burt ákvæði um verðlag á landbúnaðarvörum og að heildaratkvæðagreiðsla um samningana verði meðal bænda árið 2019. Í framhaldi af því verði málið afgreitt á Alþingi. Þá er skýrt er kveðið á um endurskoðunarákvæði innan þriggja ára í stað tíu.  

Talsmenn Samtaka verslunar og þjónustu segja jákvætt að gildistími samninganna hafi verið styttur. Einnig er því fagnað að innflutningur á svokölluðum upprunaostum, það er ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi, verði heimilaður án tolla. „Hins vegar er það magn osta lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og mun því ekki hafa áhrif á markað sem ber öll merki einokunar," segir í tilkynningu frá samtökunum.

Í tilkynningunni segir einnig að með því að taka ekki tillit til breytinga á tollkvótum sé óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta viðhaldið sem feli í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur. Einnig er bent á að tollkvótarnir taki ekki tillit til aukinnar eftirspurnar eftir matvælum með tilkomu ferðamanna.