Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja banna vinnupósta utan vinnu

15.04.2018 - 16:18
young girl with backpack, tourist traveler on background panoramic view of the mountain. Mock up for text message. Female hands using smartphone
 Mynd: Porapak Apichodilok - Pexels
Sósíalíski þjóðarflokkurinn SF í Danmörku vill að réttur fólks til að láta ekki ná í sig og lesa ekki tölvupóst utan vinnutíma verði tryggður í vinnulöggjöf. Sá réttur eigi að vera tryggður þar líkt og fæðingarorlof og sumarleyfi, því nauðsynlegt sé að koma á betra jafnvægi milli vinnu og frítíma. Fólk eigi ekki að vera undir pressu um að vera alltaf til taks þó að það sé ekki í vinnunni.

Lögfesting þess myndi styrkja rétt fólks segir talsmaður SF í umfjöllun danska ríkisútvarpsins. Það þýði ekki að starfsmönnum verði bannað að skoða póstinn sinn eða taka símtöl. Í dönsku verkalýðshreyfingunni líst mönnum vel á tillögur SF. Streita sé þjóðarsjúkdómur og löngu tímabært að skerpa mörkin milli vinnu og fjölskyldulífs. Vissulega sé það hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja um kaup og kjör en vinnulöggjöfin búi til rammann. DR vitnar líka til þess að í Frakklandi hafi það verið bannað í fyrirtækjum sem eru með fleiri en 50 starfsmenn að senda samstarfsmönnum póst eftir vinnu, um helgar eða þegar fólk er í fríi. Þá innleiddi Sören Pind, menntamálaráðherra Dana bann í ráðuneyti sínu í fyrra við því að starfsmenn væru í sambandi vegna vinnu á sunnudögum; þá ættu þeir að eiga sér hvíldardag.
 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV