Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja banna svartolíu á norðurslóðum

15.05.2019 - 13:28
Mynd: CCAC / CCAC
Náttúruverndarsamtök Íslands skora á umhverfisráðherra að beita sé fyrir því á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að notkun svartolíu verði bönnuð á norðurslóðum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt skuli að banni í lögsögunni.

Fundur umhverfisnefndar Alþjóðasiglingarmálastofnunarinnar hófst í gær í Lundúnum þar sem rætt er um leiðir til að draga úr losun frá skipaflotanum. Alþjóðasiglingamálastofnunin heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar og leiðir allar siglingaþjóðir heims saman.

3% losunar vegna siglinga

Alþjóðasiglingum eins og millilandaflugi er gert að taka til í sínum ranni hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda. Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur þegar lýst því yfir að stefnt skuli að því að minnka losunina um helming til ársins 2050 miðað við stöðuna 2008. Í grein í The Guardian kemur fram að alþjóðasiglingar valdi eða standi fyrir um þremur prósentum af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Það kann að hljóma sem lítil losun en hún jafngildir allri losun Bretlands. Og ef hún er borin saman við lista yfir losun allra landa í heiminum væru siglingar í sjötta sæti yfir lönd sem losa mest af gróðurhúsalofttegundum. Vöxturinn í siglingageiranum er hraður og ef ekkert verður að gert er útlit fyrir að losun frá skipum verði um 17% af allir losun í heiminum árið 2050 eða um miðja öldina. Um 90% af öllum vöruflutningum fara fram á sjó.

Á fundinum verður rætt um markmið stofnunnarinnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig áætlanir um að draga úr brennisteinsmengun, að ekki verði meira en 0,5% af brennisteini í skipaolíu. Einnig verður rætt um áhrif plastmengunar á heimshöfin.

Ýmis umhverfissamtök standa fyrir mótmælum fyrir utan fundinn í Lundúnum en þeim þykir skipafélögin hafa gert allt of lítið til að draga úr mengun. Ein þeirra krefjast þess að skipin dragi úr siglingahraða um 10% sem myndi draga talsvert úr mengun.

Flýtir fyrir bráðnun

Samtökin Clean Arctic Alliance krefjast þess að notkun svartolíu verðir bönnuð á norðurslóðum eða norðan 66. breiddargráðu. Náttúruverndarsamtök Íslands eru með í þessum samtökum. Ástæðan fyrir áhyggjum af notkun svartolíu er að svartar sótagnir dreifast yfir ísbreiðuna. Það veldur því að yfirborð íssins bráðnar hraðar en ella.

Á fundi umhverfisnefndar  Alþjóðasiglingamálastofnunar í fyrra var samþykkt tillaga um bann við svartolíu. Náttúruverndarsmtök Íslands hvetja umhverfisráðherra í bréfi sem þau sendu honum í síðustu viku til þess að fylgja þessu fast eftir. Í stjórnarsáttmálunum er kveðið á um að stefnt skuli að banni á notkun svartolíu í lögsögu Íslands og í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum kemur fram að með breytingum á lögum eða reglugerðum verði stefnt að því að draga smám saman úr notkun svartolíu þar til henni verður hætt. 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV