Vilja banna örplast í snyrtivörum

03.05.2017 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslendingar ásamt öðrum norrænum þjóðum ætla að leggja til að örplast verði bannað í snyrtivörum. Þetta var ákveðið á fundi norrænna umhverfisráðherra sem er ný lokið. Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra segir að baráttan gegn örplasti sé brýn.   

Norrænu umhverfisráðherrarnir samþykktu nýja plastáætlun á fundi sínum í Osló sem lauk í gær. Björt segir að ráðherrarnir hafi verið  sammála um að vinna saman að því að draga úr plastmengun í höfunum. Brýnt sé fyrir Íslendinga að leggja áherslu á örplast.   
 
„Það liggur fyrir að við Íslendingar ætlum að vera með Norðurlöndunum í því að leggja til að það verði sett á bann í fyrstu þá bara á örplast í snyrtivörum sem er nú þó bara lítill hluti af örplasti. Því verður hleypt af stokkunum í New York í júní að forgöngu svía.“
 
Ákveðið var á fundinum að Norðurlöndin myndu bindast böndum og verða leiðandi í baráttunni gegn plastmengun í hafi.

„Því eins og við þekkjum að þá liggur mikið undir ekki síst hjá okkur Íslendingum, einu landamærin okkar er hafið. 
Verður sett fjármagn í þetta, eitthvað sérstakt fjármagn í þessa baráttu?  
Við erum nú ekki komin svo langt. Fyrsta skrefið er að samræma aðgerðir og taka þetta svona á pólitíska „levelinu“ og það hefur reynst mjög auðvelt.“

Ekki eru örplastsíur í skophreinsistöðvum hér á landi. Verður það tekið til athugunar?

„Já það þarf að taka það til athugunar og það er auðvitað vitað mál að það mun kosta peninga að bæta frárennsliskerfi í landinu til þess að þau séu viðunandi til þess að getað síað þetta örplast frá.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi