Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja auka samstarf á sviði samfélagsöryggis

15.11.2019 - 13:33
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi var samþykkt á Norðurlandaráðsþinginu  í Stokkhólmi í síðasta mánuði. Ísland sem tekur við formennsku í ráðinu á næsta ári og mun leggja áherslu á þennan málaflokk. Silja Dögg Gunnarsdóttir var kjörin forseti Norðurlandaráðs og Oddný Harðardóttir varaforseti.

„Þessi áætlun fjallar um að við aukum samstarf okkar um samfélagsöryggi. Þar eigum við til dæmis við aukið samstarf á svið löggæslu á milli ríkjanna. Það er einnig talað um aukið samstarf á sviði netöryggis sem er aðkallandi mál,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir. Hún segir að stefnt sé að samstarfi um almannavarnir. Samstarf slökkviliða verði aukið meðal annars vegna aukinna skógarelda sem glímt hefur verið við í Skandinavíu.

Fólk vill aukið samstarf

Oddný Harðardóttir vann í forsætisnefndinni að gerð stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi. Spurningin er hvort samstarfið sé ekki nú þegar fyrir hendi. Oddný bendir á að allar kannanir sem gerðar hafa verið á Norðurlöndunum að fólk vill aukið samstarf. Þar sé samfélagsöryggi ofarlega á lista.

„Sérfræðingar sem komu fyrir nefndina sögðu að við gætum unnið miklu betur saman. Við getum náð miklu betri árangri með því að deila þekkingu, tækjum og tólum en það vantar pólitíska forystu. Og það var þess vegna sem við settumst niður til þess að draga það fram sem væri sem Norðurlandaráð vill að ríkisstjórnirnar geri. Lögð áherslu á samfélagsöryggi og margt sem ógnar okkar öryggi. Það er loftslagsvá, hryðjuverk, netárásir, farsóttir og fleira,“ segir Oddný Harðardóttir.

Samþykkt Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi.

Rætt var við Silju og Oddnýju í Speglinum.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV