Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja auka hlut íslenskra jólatrjáa

05.12.2016 - 20:20
Full ástæða er talin til að hvetja íslenska skógarbændur að auka ræktun á jólatrjám og efla þannig markað með innlend tré. Tæp 80% af lifandi jólatrjám á íslenskum heimilum eru innflutt.

Skógarhöggsmenn víða um land eru nú í óða önn að höggva jólatré og koma í sölu. Og ekki spillir veðrið fyrir. „Þetta er alger lúxsus,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. „Venjulega erum við að kafa snjó hérna upp í axlir.“

Þarf að passa trén betur í hlýindunum

En hlýindin eru líka ókostur því Ingólfur segir hættara við að trén þorni en þegar kalt er í veðri. „Já, maður þarf að passa þau mjög vel í geymslu. Og þegar viðrar svona vel þá er um við ekkert að drífa okkur að fella þau. Við erum bara að taka beint í söluna eins og hún gengur fyrir.“

Hvattir til að rækta meira af íslenskum jólatrjám

Innlendi markaðurinn með lifandi jólatré er tæp 50 þúsund tré. Þar af eru íslensk tré aðeins ríflega 10 þúsund. Hlutur innlendra jólatrjáa er því ekki stór í samkeppninni við danska stórframleiðendur. Því hafa skógræktendur hér verið hvattir til að rækta meira af jólatrjám og það hefur aukist síðustu ár.

„Eigum ekkert að vera að flytja þetta inn“

„Og framtíðin er náttúrulega að við íslenskir bændur, eða skógræktarmenn, eigum bara að sjá um þetta,“ segir Páll Ingvarsson, skógarbóndi í Reykhúsum í Eyjafirði. „Við eigum ekkert að vera að flytja þetta inn.“ Það eru fimm ár síðan Páll og Anna kona hans fóru að rækta rauðgreni sem eingöngu er ætlað sem jólatré. „Og þetta virðist bara ganga alveg merkilega vel,“ segir Páll.

Fólk eigi að geta valið

Margir hafa þann sið að fara út í skóg með fjölskyldunni og velja sér jólatré á meðan öðrum dugir að kaupa sitt tré út úr búð. Ingólfur Jóhannsson segir að þarna eigi fólk að geta valið hvað það vill. „Þetta þurfum við bara hvorutveggja að rækta og sinna.“
 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV