Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja afnema sérstöðu vímuefnabrota

30.08.2016 - 18:30
Mynd: RÚV / RÚV
„Jaðarsetningin er í sjálfu sér hættulegri heldur en flest efnin og veldur langflestum dauðsföllum og skaða," segir Borgar Þór Einarsson, sem fer fyrir starfshópi sem leggur til að refsing fyrir vörslu og meðferð á neysluskömmtum ólöglegra vímuefna verði bundin við sektir. Jaðarsetningin valdi því að fólk þori ekki að leita aðstoðar vegna ótta við að lenda sjálft í vandræðum.

Í aðstæðum þar sem einn eða fleiri hafa tekið of stóran skammt geti allir sem eru viðstaddir átt á hættu að lenda á sakaskrá við núverandi aðstæður, kalli þeir á hjálp. „Þetta er að okkar mati ástand sem er engum til góðs. Ef samfélagið lítur á annað borð þannig á að það beri ábyrgð á heilsu fólks þá hljótum við að stíga til baka og segja hvernig getum við komið þessum aðstæðum í burtu," sagði Borgar Þór í viðtali í Síðdegisútvarpinu í dag. 

Sektir í stað fangelsisvistar

Starfshópurinn, sem heilbrigðisráðherra skipaði árið 2014, hafi starfað eftir þeirri forskrift að fíkniefnaneytendur væru neytendur, en ekki afbrotamenn. Tillögur hópsins verði ákveðið leiðarljós og grundvöllur að frekari vinnu. Þetta sé ekki lokalausnin heldur sé í skýrslunni, sem skilað hefur verið til Alþingis, verið að skera helstu vankantana af núverandi fyrirkomulagi án þess að kollvarpa því. 

Helstu tillögur eru að taka upp sektir fyrir vörslu neysluskammta af fíkniefnum í stað fangelsisrefsingar. „Það er afstöðubreyting en ekki mikil breyting í raun því þessari stefnu hefur verið fylgt af flestum lögregluembættum, að þessi brot eru afgreidd með sektaraðgerðum en með þessu erum við að undirstrika það að löggjafinn líti þannig á að ekki eigi að setja þetta fólk í fangelsi."

Vilja afnema sérstöðu vímuefnabrota

Ára- og jafnvel áratugahefð sé fyrir þeim viðmiðum sem lögregluembætti fylgi um hvaða magn teljist neysluskammtur og sérstök fyrirmæli hjá ríkissaksóknara hvaða viðmið skuli styðjast við, segir Borgar. Þetta sé útfærsluatriði og þessi tillaga gangi hvað lengst frá núverandi kerfi. „Það sem við erum líka mjög mikið að horfa til er að afnema sérstöðu vímuefnabrota þegar kemur að sakaskrá. Það gilda í dag sérreglur um sakaskrá þannig að öll brot á vímuefnalöggjöf enda á sakaskrá, alveg sama hversu smávægileg þau eru. Þeir sem eru komnir yfir þá línu eiga mjög erfitt með að snúa til baka. Við erum að leggja til að það sama gildi um þessi brot eins og til dæmis brot á umferðarlöggjöfinni; það þurfi ákveðið mikið afbrot til að það sé skráð á sakaskrá."

Einnig leggur starfshópurinn til að sérstaða vímuefnabrota verði afnumin þegar um vímuefnaakstur er að ræða. Í núverandi lagaákvæði sé gert ráð fyrir að tekin sé þvagprufa og mælist þar niðurbrotsefni ólöglegra vímuefna þá teljist það vímuefnaakstur. Slík efni geti hinsvegar mælst í þvagi mörgum vikum eftir neyslu þeirra. „Þá er ekki verið að beita ökuleyfasviptingu eða refsingu fyrir að vera undir áhrifum heldur fyrir að vera neytandi efnanna og þetta teljum við að sé mismunun og viljum afnema í lögunum," segir Borgar Þór.

Meiri kröfur verði gerðar til þeirra sem veita meðferðir 

Starfshópurinn vill einnig að gerðar verði lágmarkskröfur til þeirra sem veita meðferðir. „Reynslan hefur sýnt að starf sjálfstæðra hópa, ekki hins opinbera virkar mjög vel, bæði víða um heim og það hefur sýnt sig hér á landi. Ágætt dæmi um það er frú Ragnheiður. Það sem við erum að leggja til er að það verði samræmdar reglur um það hvaða skilyrði slíkir hópar þurfa að uppfylla til að þiggja opinbert fé. Í þessu felst viðurkenning á gagnsemi þessara hópa."
Þannig verði takmörkuð áhættan á því að illa fari í slíkri starfsemi eins og dæmi séu um íslenskri samtímasögu. 

Samdóma álit nær allra sem komu á fund nefndarinnar að auka þurfi samráð milli opinberra og einkaaðila sem að þessum málum vinna. Borgar gerir ráð fyrri því að þegar ráðherra hafi kynnt skýrsluna formlega fyrir þinginu verði samráðsvettvangur skipaður sem vinni áfram með tillögurnar og verði ráðherra framvegis til ráðgjafar um þessi mál. „Í framhaldi af því verði farið í að breyta löggjöf eftir því sem þarf og hrinda öðrum tillögum í framkvæmt. Sumt er hægt að gera strax, annað krefst meiri undirbúnings."
 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV