Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja afnema refsingu við guðlasti

09.01.2015 - 00:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Pírata vilja afnema bann við guðlasti. Samkvæmt frumvarpi til laga sem þingflokkur Pírata hyggst leggja fram þegar þing kemur næst saman verður 125. grein almennra hegningarlaga afnumin, en samkvæmt henni geta sektir eða fangelsisdómur legið við opinberu guðlasti.

Í 125. grein segir að hver sá sem opinberlega „dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags“ hér á landi, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

Í greinargerð með frumvarpi þeirra Helga Hrafns Gunnarssonar, Jóns Þórs Ólafssonar og Birgittu Jónsdóttur, þingmanna Pírata, segir að íslensk löggjöf hafi oft verið gagnrýnd fyrir ýmsa vankanta af alþjóðastofnunum, en þetta sé einn „augljósasti smánarbletturinn á almennum hegingarlögum“. Tjáningarfrelsið sé einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðis og frelsis, og grundvallaratriði í frjálsu samfélagi sé að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi. 

„Fólk hefur ólíka sýn á lífið og því er viðbúið að tjáning sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi. Sem betur fer eru upplifanir fólks af lífinu og tilverunni afskaplega ólíkar. Því er með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast innan ramma kurteisinnar," segir í greinargerðinni.

Tveir dæmdir fyrir guðlast frá 1918

Síðan Ísland fékk fullveldi hafa tveir verið dæmdir fyrir guðlast. Brynjólfur Bjarnason var dæmdur í 30 skilorðsbundið fangelsi fyrir guðlast í ritdómi í Alþýðublaðinu árið 1925.

Úlfur Þormóðsson, ritstjóri spaugtímaritins Spegilsins, var dæmdur fyrir guðlast í öðru tölublaði Spegilsins árið 1983. Upplag tímaritins var gert upptækt af lögreglu og enn í dag er ekki hægt að skoða þetta tölublað á vef Landsbókasafnsins, Tímarit.is, vegna lögbanns.

Í greinagerð Pírata segir að þó svo að kæruheimild lagagreinarinnar um guðlast sé sjaldan beitt, þýði það ekki að hún sé „dauður lagabókstafur“ sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af. Hún geti samt sem áður haft áhrif á samfélagið án þess að til kasta dómstóla komi. Þá geti íslenskir ráðamenn ekki fordæmt beitingu sambærilegra lagagreina í ófrjálsari löndum ef slíka grein er einnig að finna í refsilöggjöf hérlendis.

Tjáningarfrelsið lúti ekki fyrir ofbeldi og hótunum

Í greinagerð með frumvarpi Pírata er ennfremur minnst á árásina á ritstjórn Charlie Hebdo í París þann 7. janúar, þegar tólf létu lífið. Tilefni árásarinnar var sú að tímaritið hafði birt móðgandi myndir af Múhameð, spámanni íslams.

„Slíkar árásir á fólk vegna tjáningar eru því miður ekki nýlunda,“ segir í greinagerð frumvarpsins.

„Það er hinsvegar ábyrgðarhluti lýðræðissamfélaga að svara slíkum árásum með þeim skýru skilaboðum að tjáningarfrelsið muni aldrei lúta fyrir manndrápum, ofbeldi eða hótunum. Meðal annars af þeirri ástæðu leggja flutningsmenn frumvarpsins til að Ísland leggi sitt af mörkum við að koma þeim skilaboðum á framfæri með því að gera frumvarp þetta að lögum.“

Frumvarpið hefur verið sent til skjalavinnslu á Alþingi.