Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja að verjandi Weinsteins verði rekinn

17.03.2019 - 16:35
epa06248485 (FILE) - US producer Harvey Weinstein before the first Presidential Debate between Democrat Hillary Clinton and Republican Donald Trump at Hofstra University in Hempstead, New York, USA, 26 September 2016. Hollywood producer Harvey Weinstein
Mál Harvey Weinsteins hefur orðið til þess að ormagryfja hefur opnast í Hollywood Mynd: PETER FOLEY - EPA-EFE
Stúdentar við lagadeild Harvard-háskóla krefjast þess að einn af forsetum lagadeildarinnar verði rekinn eftir að hann tók að sér að verja kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein sem er ákærður fyrir að beita tvær konur kynferðislegu ofbeldi.

Ronald Sullivan er virtur lögfræðingur og einn forseti einnar stofnunar innan lagadeildar Harvard-háskóla, sem er einn virtasti háskóli Bandaríkjanna. Sullivan er einn margra lögfræðinga sem skipa verjendateymi Harveys Weinstein en réttarhöldin yfir honum hefjast í sumar. Nemendum við Harvard er misboðið og nú krefjast þeir þess að Sullivan verði vikið frá störfum. Ekki sé forsvaranlegt að kennari við háskóla verji meintan kynferðisglæpamann.

Samstarfsmenn Sullivan hafa risið honum til varnar. 52 þeirra hafa ritað bréf í dagblaðið Boston Globe þar sem þeir krefjast þess að stjórnendur háskólans verji rétt Sullivans til þess að verja hvern þann mann sem sætir ákæru. Þeir benda á að Sullivan hafi margoft varið fólk sem hefur verið sakað um kynferðisbrot, hryðjuverk og meira að segja morð.

Sullivan hefur einnig haldið upp vörnum gagnvart nemendum sínum og bent þeim á þá meginreglu réttarríkisins að hann sem lögfræðingur hafi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þeim sem sæta ákæru, líka þeim sem ekki eru vinsælir - og að allir menn séu saklausir þar til sekt þeirra sannast. Hann segir í háskólablaðinu Harvard Crimson að þegar sá dagur renni upp að samfélagið meini óvinsælum sakborningum um þau grundvallarréttindi að fá að grípa til varna þegar þeir sæti ákæru, þá hættum að vera það samfélag sem við hingað til höfum lagt okkur fram um að byggja upp.

Nemendurnir slá þó ekki af kröfu sinni um að Sullivan verði rekinn og spyrja í undirskriftasöfnun sem hrundið hefur verið af stað hvort lögfræðingar framtíðarinnar vilji virkilega fá útskriftarskírteini undirskrifað af manni sem varði einn af helstu skúrkum MeToo hreyfingarinnar.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV