Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja að rannsóknir og þróun fylgi þangvinnslu

29.05.2019 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Ráðgefandi nefnd leggur til að Stykkishólmsbær hefji viðræður við kanadíska fyrirtækið Acadian Seaplants Limited, vilji bærinn að þörungavinnsla hefjist þar. Tvö fyrirtæki hafa átt í viðræðum við Stykkishólm vegna þangtekju og tengdrar starfsemi í bænum og nefndin vill tryggja að rannsóknir og þróun fylgi þangtekju og vinnslu.

Kynntu niðurstöður á íbúafundi

Ráðgefandi nefnd var skipuð tíu manns úr Stykkishólmi með breiðan bakgrunn, til að meta kosti og galla fyrirhugaðrar þörungavinnslu og móta viðmið fyrir sveitarfélagið í áframhaldandi viðræðum. Niðurstöður nefndarinnar voru kynntar á íbúafundi í Stykkishólmi í gær.

Vilja tryggja rannsóknir og þróun

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að nefndin telur að þörungavinnsla í Stykkishólmi bæti búsetuskilyrði og auki fjölbreytni í atvinnulífi. Störfum geti fjölgað um 20 þegar verksmiðjan verði komin í full afköst auk allt að 8 afleiddra starfa. Árlegur ávinningur Stykkishólmsbæjar gæti numið um 30 milljónum króna á ári auk afleiddra tekna. Nefndin telur að þörungavinnsla geti orðið til þess að rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar verði auknar, leggja áherslu á sjálbærni og finnst æskilegt að ákveðið hlutfall af tekjum þörungavinnslu fari í rannsóknir og þróun.

Leggja til viðræður við kanadískt fyrirtæki

Nefndin leggur til að ef Stykkishólmsbær hyggist halda áfram viðræðum þá skuli bærinn ræða við kanadíska fyrirtækið Acadian Seaplants Limited. Hitt fyrirtækið er Íslenska kalkþörungafélagið, sem er í eigu Marigot á Írlandi. Nefndin telur bæði fyrirtækin hafa burði og reynslu til að koma á fót þörungavinnslu í Stykkishólmi en telur Acadian Seaplants hafa meiri burði og vísindalega þekkingu og reynslu til að koma á fót og styðja við rannsóknir á þara og þangi með virðisaukandi framleiðslu að leiðarljósi.

Skýrslu nefndarinnar má nálgast á heimasíðu Stykkishólmsbæjar. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður