Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja að ráðherra kanni kjör heilsugæslulækna

27.03.2018 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: ?? - ruv.is
Læknafélag Íslands telur vandséð að sú fullyrðing geti staðist að það geti verið ódýrara fyrir heilbrigðisstofnanir að ráða heilsugæslulækna sem verktaka en sem launamenn, líkt og settur forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sagði í samtali við fréttastofu. Fullyrðingin geti aðeins staðist ef verktakalæknar fái lægri laun en samkvæmt kjarasamningi. Þetta kemur fram í bréfi sem félagið sendi heilbrigðisráðherra í morgun.

Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, settur forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, sagði í samtali við fréttastofu í fyrradag að í sumum tilfellum væri ódýrara fyrir heilbrigðisstofnanir að greiða læknum verktakalaun en hafa þá í föstu starfi. Hún sagði að læknum væru greidd slík laun vegna mikillar neyðar og að mjög erfiðlega gangi að fá lækna til starfa á landsbyggðinni.

Segir fullyrðingu forstjóra koma á óvart

Reynir Arngrímsson,  formaður Læknafélags Íslands, segir að fullyrðing setts forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hafi komið á óvart. Í ljósi frétta á dögunum um að læknum væru greiddar allt að 220.000 krónur fyrir sólarhringinn á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefði mátt ætla að það væri mun dýrara að hafa lækna á verktakagreiðslum en fastráðna. „Við teljum vandséð hvernig það geti staðist nema verið sé að greiða lægri laun en samkvæmt kjarasamningi. Við höfum óskað eftir því við heilbrigðisráðherra að það verði kannað hvernig það geti staðist. Ef þetta hefur viðgengist þá lítum við það alvarlegum augum. Afleiðingar af undirboðum sem þessum geta ekki verið aðrar en að læknar fáist ekki til starfa með þeim afleiðingum að þjónusta hlýtur að skerðast,“ segir hann.

Kanna hvort læknum standi ekki fastráðning til boða

Læknafélag Íslands hefur undanfarna tvo sólarhringa fengið upplýsingar um það að læknum sem vilja fastráðningu til lengri tíma á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni standi aðeins til boða ráðning með verktakasamningi. „Læknar hafa haft samband við okkur og bent á dæmi um að þeir hafi sóst eftir fastráðningu samkvæmt kjarasamningi og verið neitað um það. Við höfum óskað eftir því að ráðuneytið kanni málið. Við höfum engar ástæður til að efast um þessar frásagnir læknanna,“ segir hann. 

Vilja hafa fastráðna lækna um allt land

Fréttastofa greindi frá því á dögunum að læknar sem vinna á landsbyggðinni í verktöku fái 120.000 til 220.000 krónur í laun á sólarhring. Reynir segir að verið sé að kortleggja stöðuna hjá Læknafélagi Íslands. Vel geti verið að sumar heilbrigðisstofnanir sem séu langt í burt frá höfuðborgarsvæðinu þurfi að greiða meira en aðrar. Læknafélagið vilji fá glögga mynd af stöðunni. Stefna félagsins sé að fastráðnir læknar séu um allt land og að þeir búi á svæðinu þar sem þeir vinni og geti veitt samfellda þjónustu. Staðan sé því miður ekki þannig í dag að sums staðar séu aðeins læknar sem starfa sem verktakar og að slíkum tilvikum hafi farið fjölgandi.