Vilja að ráðamenn fái ekki launahækkun í sumar

14.01.2019 - 11:17
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
ASÍ, BSRB og Viðskiptaráð Íslands leggjast gegn því að laun æðstu ráðamanna hækki 1. júlí eins og gert er ráð fyrir í nýju kjararáðsfrumvarpi fjármálaráðherra. Samkvæmt skýrslu starfshóps um málefni kjararáðs eru laun íslenskra ráðamanna há í alþjóðlegu samhengi þrátt fyrir smæð landsins. ASÍ segir laun æðstu stjórnenda ríkisins hafa hækkað langt umfram almenna launaþróun og að sú framúrkeyrsla hafi ekki enn verið jöfnuð.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögnum samtakanna við frumvarp Bjarna Benediktssonar um breytingar á kjararáði.

Forsætisráðherra skipaði starfshóp um kjararáð í janúar á síðasta ári sem skilaði síðan niðurstöðu sinni í febrúar.  Starfshópurinn komst meðal annars   að þeirri niðurstöðu að viðmið kjararáðs hefðu verið óskýr og ósamrýmanleg. Laun æðstu embættismanna ætti að úrskurða eftir ákveðinni launafjárhæð sem yrði síðan endurskoðuð á árs fresti.  Í lok nóvember lagði fjármálaráðherra svo fram frumvarp þar sem stuðst var við tillögur starfshópsins. 

Prestafélag Íslands skilaði umsögn sinni um frumvarpið  um miðjan desember þar sem því var mótmælt að laun biskupa, vígslubiskupa, prófasta og presta yrðu fryst um óskilgreindan tíma.  Embættismenn þjóðkirkjunnar ættu að standa jafnfætis öðrum sem hefðu heyrt undir kjararáð. 

ASÍ gerir í umsögn sinni alvarlega athugasemd við fyrirhugaða launahækkun æðstu ráðamanna þann 1. júlí. Laun æðstu stjórnenda ríkisins hafi hækkað „langt umfram almenna launaþróun.“

ASÍ bendir á að samkvæmt skýrslu starfshópsins hafi laun ráðherra hækkað um 64 prósent frá árinu 2013, ráðuneytisstjóra um 48 til 49 prósent, skrifstofustjóra um 51 til 55 prósent og forseta Íslands um 46 prósent. Meðalárslaun ríkisstarfsmanna hafi á sama tíma hækkað um 40 prósent.  ASÍ hafi viljað laun æðstu ráðamanna yrðu lækkuð en ekki fryst vegna „útafkeyrslu kjararáðs.“ Alþýðusambandið vill því að launahækkunum ráðamanna verði frestað þar til fyrir liggi að jöfnun gagnvart launahækkunum annarra ríkisstarfsmanna hafi verið náð.

Í sama streng tekur BSRB í umsögn sinni. Farsælast væri að launum æðstu ráðamanna yrði haldið óbreyttum um tiltekin tíma og eðlilegt væri að það yrði til ársins 2020.  „Laun æðstu stjórnenda ríkisins hafa hækkað töluvert umfram almenna launaþróun á undanförnum árum sem hefur valdið miklum titringi og óánægju á meðal almennings í landinu.“

Samtök atvinnulífsins gera ekki athugasemd við fyrirhugaða launahækkun í umsögn sinni en Viðskiptaráð Íslands spyr hvort frysting launa kjararáðshópa sé nægilega löng. Til að mynda gæti frysting launa hjá stjórnmálamönnum gefið gott fordæmi í yfirstandandi kjaraviðræðum og mögulega liðkað fyrir farsælum lausnum. „Þá má enn fremur nefna að samkvæmt skýrslu starfshópsins eru laun íslenskra ráðamanna há í alþjóðlegu samhengi þrátt fyrir smæð landsins,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi