Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vilja að íslenska fái stjórnarskrárvernd

20.01.2013 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vill að sérstakt ákvæði um vernd íslenskrar tungu verði sett inn í stjórnarskrárfrumvarpið. Brýnt sé að þetta þjóðareinkenni Íslendinga sé varið, segir í umsögn nefndarinnar um frumvarpið.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis skilaði umsögninni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir helgi. Þar kemur fram að með þessu nýja ákvæði sem meirihluti allsherjarnefndar vill fá inn í stjórnarskrárfrumvarpið sé tekið undir með niðurstöðum þjóðfundar þess efnis að íslensk tunga feli í sér verðmæti fyrir Íslendinga sem ber að vernda og efla. Nefndin vill að ákvæðið hljóði þannig: Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.

Þá þykir nefndinni ákvæði í frumvarpinu um vernd heimildarmanna fréttamanna ekki nógu ítarlegt og vill að þar verði einnig kveðið á um vernd uppljóstrara. Í tillögu stjórnlagaráðs hafi verið getið um vernd uppljóstrara en sérfræðingahópur hafi fellt það brott. Allsherjarnefnd telur að uppljóstrarar þurfi ef eitthvað er meiri vernd en heimildarmenn, þar sem starf þeirra, staða og öryggi geti verið í hættu vegna þeirra upplýsinga sem þeir komi á framfæri. Mikilvægir almannahagsmunir kalli á sérstaka vernd þeirra.

Meirihluti allsherjarnefndar tekur undir með sérfræðingahópnum um að tryggja þurfi að unnt sé að svipta menn íslenskum ríkisborgararétti ef þeir hafi öðlast hann með ólögmætum hætti, til dæmis á grundvelli falsaðra gagna eða rangra upplýsinga.

Meirihlutinn bendir á að í frumvarpinu sé ekki að finna ákvæði úr stjórnarskránni um að takmarka megi með lögum rétt útlendinga til að eiga fasteignir eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi. Þá segir að það sjónarmið hafi verið rætt í nefndinni að yfirráð yfir landi væri mikilvægur þáttur í fullveldi hvers ríkis. Þess vegna ætti áfram að hafa í stjórnarskrá heimild Alþingis til að setja lög sem takmarki fjárfestingar útlendinga hér á landi.