Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vildi lægja reiðina eftir hrun

24.11.2013 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Gnarr, fráfarandi borgarstjóri í Reykjavík, kvaðst hafa upplifað ótta í búsáhaldarbyltingunni. Hann hefði borið kvíðboga fyrir framtíðinni og fengið þá hugmynd að vellliðinn náungi eins og hann gæti mögulega stigið inn í þeta ástand með þeim hætti sem enginn hefði gert áður.

Þetta kom fram í viðtali við Jón í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn, spjallþætti Gísla Marteins á RÚV í hádeginu í dag. Þar ræddi hann um starf sitt sem borgarstjóra, Besta flokkinn og hvað varð til þess að hann ákvað að bjóða sig fram.

Jón sagðist alltaf hafa litið á sig sem grínista - það færi í taugarnar á honum að vera kallaður skemmtikraftur.  „Eins væmið og það hljómar þá fannst mér að eftir þetta hrun og þessa örvæntingu að einhver kall eins og ég gæti blandað mér inn í þetta og gert þetta léttara og skemmtilegra,“ sagði Jón. Hann hafi þannig viljað reyna að lægja reiðiölduna eftir hrun þannig að fólk fengi það á tilfinninguna að eitthvað hefði gerst.

Jón lýsti því yfir í útvarpsþætti Tvíhöfða á Rás 2 í síðasta mánuði að hann ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram og að Besti flokkurinn yrði lagður niður. Jón sagðist að honum þætti mjög gaman að vinna í hóp en hann reyndi að forðast rifrildi í lengstu lög. „Ég er ekki hrifinn af „með eða á móti“ málflutningi,“ sagði Jón.

Hann ítrekaði þá skoðun sína að honum þætti samskiptin í stjórnmálum ekki góð - þótt fólk væri ósammála þyrfti það ekki að vera reitt eða ruddalegt. „Þetta er eins og að vera leshring þar sem er bara talað um stafsetningu - ekkert um bókina.“

Jón var einnig spurður út í kosningaloforð sín - sem voru mörg hver ansi skrautleg fyrir kosningarnar 2010.

Þar vakti sú hugmynd að hafa aðstöðu fyrir hvítabjörn í Húsdýragarðinum mikla athygli -  margir töldu það vera grín. „Ég vildi í alvörunni fá aðstöðu fyrir hvítabjörn í Húsdýragarðinn. En ríkið heldur bara áfram að drepa þessi dýr sem koma til landsins og það hefur aldrei verið til umræðu að skoða aðrar lausnir. En ég vildi sjá aðstöðu í Húsdýragarðinum fyrir hvítabjörn.“

Jón á aðeins nokkra mánuði eftir í starfi sem borgarstjóri.  Hann lofaði því í lok viðtalsins að þeir mánuðir yrðu „flugeldasýning.“

[email protected]