Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vildi ekki verja þá tekjulægstu

23.12.2013 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Verulega hefur dregið úr misskiptingu hér á landi á síðustu árum að sögn forseta ASÍ. Hann segir að ef atvinnulífið velti kauphækkunum út í verðlagið á næstu mánuðum þá verði mikil læti hér á landi í haust.

Hann gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að hafa hafnað kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að verja tekjulægstu hópanna. Ríkisstjórnin hafnaði kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að verja tekjulægstu hópa samfélagsins, segir forseti ASÍ. Hann segir að verulega hafi dregið úr misskiptingu hér á landi á undanförnum árum. Mikil læti verði í samfélaginu í haust ef atvinnulífið veltir kauphækkunum út í verðlagið.

Þetta var Gylfi Arnbjörnsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. Jóhann Hlíðar Harðarson tók pistilinn saman.

Fimm af nítján aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins neituðu að skrifa undir nýjan kjarasamning sem undirritaður var á laugardagskvöld og skora leiðtogar þeirra á sitt fólk að fella samninginn. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist skilja þetta fólk mjög vel, aðrir í samninganefndinni hafi líka viljað gera betur. „Við vildum að ríkisstjórnin myndi líka verja þá tekjulægstu. Það vildi ríkisstjórnin ekki gera.“

Hann segir að í ljósi þessa hafi menn þurft að meta stöðuna. Niðurstaða annarra í samninganefndinni, sem eru fulltrúar 95% þeirra sem samningurinn varðar, hafi verið að lengra hafi menn ekki komist í þessari lotu. Þá þurfi að axla ábyrgð og leggja samning fyrir félagsmenn.

Gylfi segir að ekki megi heldur gleyma því að verkalýðshreyfingin er ekki að semja við sjálfa sig, hún er að semja við mótaðila. „Það er búið að endurnýja forystu Samtaka atvinnulífsins og hún mætti að þessu leyti með kannski harðara viðhorf en við höfum séð undanfarið.“

Hann segir að þetta sé skammtímasamningur til 12 mánaða, svokallað vopnahlé. Langtímamarkmiðið sé að byggja upp kaupmátt og ná tökum á verðbólgunni. SA og ASÍ ætli sameiginlega að þrýsta á fyrirtæki um að velta kauphækkunum ekki út í verðlagið. „Ef atvinnulífið mætir þessari tilraun með því að velta öllu út í verðlagið áfram, þá er alveg ljóst að tilraunin mistókst. Að vopnahléið varð ekki til þess að tryggja frið, og þá spái ég því að næsta haust verði mjög mikil læti út af þessu.“

Gylfi hafnar því að verkalýðshreyfingin sé að missa tökin. Þáttaka í íslenskri verkalýðshreyfingu hafi aukist á síðustu 20 árum á sama tíma og dregur úr henni annars staðar í Evrópu. Hann segir að verkalýðsforystunni hafi orðið vel ágengt með að skapa og auka réttindi vinnandi fólks.

Aukin misskipting hefur verið gagnrýnd. „Við semjum ekki um kaup forstjóranna. Við sömdum aldrei um þau laun sem bankamennirnir fengu hér á Íslandi og voru orsök þess að misskipting jókst í landinu. En á sama tíma vorum við að hækka lægstu laun mest allra ríkja í Evrópu. Þess vegna getum við sagt það núna, ef við skoðum þann hluta launabilsins sem fellur undir kjarasamninga og áhrifasviðs verkalýðshreyfingarinnar almennt, þá hefur dregið mjög verulega úr misskiptingu.“