Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vilborg á leið á Suðurpólinn

02.11.2012 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Vilborg Arna Gissurardóttir leggur af stað í hádeginu í dag á Suðurpólinn. Hún stefnir á að verða fyrsta íslenska konan til að komast ein á Suðurpólinn. Hún hefur undirbúið ferðalagið í nokkur ár.

Vilborg Arna leggur af stað klukkan tólf á hádegi úr anddyri kvennadeildar Landspítalans, en leiðangurinn er farinn í þágu Lífs, styrktarfélags sem hefur það markmið að styðja við konur og fjölskyldur þeirra á kvennadeildinni.
 
Í tilkynningu kemur fram að Líf, styrktarfélag telji að þessi ferð Vilborgar í þágu kvennadeildar Landspítala auki enn frekar skilning landsmanna á mikilvægi þess að konur og fjölskyldur þeirra njóti besta aðbúnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Áætlað er að Vilborg Arna verði komin til Suðurskautslandsins 11. nóv nk. en upphaf ferðarinnar er við Hercules Inlet á Suðurpólnum.  Gönguleiðin er 1140 km og má búast við krefjandi veðurfari, miklum mótvindi, erfiðu skíðafæri og háum rifsköflum.

Áætlaðir göngudagar eru 50 talsins en til þess að ná þeim þarf Vilborg að ganga að meðaltali 22 km á dag. 

Vilborg gengur af stað með tvo sleða í eftirdragi sem vega um 100 kg í byrjun ferðar.  Hún mun verða í daglegu sambandi við leiðangursstjórn vegna staðsetningar og veðurspár og senda frá sér stutta pistla á meðan á för hennar stendur.