Viktor Gísli átti stórleik í sigri GOG

Men’s EHF EURO 2020 Sweden, Austria, Norway - Preliminary Round - Group E, Iceland vs Russia, Malmo Arena, Malmo, Sweden, 13.1.2020, Mandatory Credit © Anze Malovrh / kolektiff
 Mynd: Anze Malovrh / kolektiff - EHF

Viktor Gísli átti stórleik í sigri GOG

25.02.2020 - 20:00
Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson átti góðan dag er lið hans GOG lagði Bjerringbro/Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. GOG fór með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar.

Leikið var á heimavelli GOG í kvöld en gestirnir frá Silkeborg voru lengst af með yfirhöndina í jöfnum fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 17-16 fyrir Bjerringbro/Silkeborg.

Heimamenn voru hins vegar sterkari í síðari hálfleiknum og gerðu góðar markvörslur Viktors Gísla á lokakaflanum útslagið fyrir GOG sem vann þriggja marka sigur, 32-29.

Alls varði Viktor Gísli 16 skot í leiknum. Óðinn Þór Ríkharðsson átti einnig góðan dag þar sem hann skoraði fimm mörk og þá skoraði Arnar Freyr Arnarsson fjögur. Þráinn Orri Jónsson spilaði ekki fyrir Bjerringbro/Silkeborg í kvöld.

GOG fór með sigri kvöldsins upp í annað sæti deildarinnar þar sem liðið er með 30 stig eftir 22 leiki, sjö stigum frá toppliði Álaborgar. Holsterbro er í þriðja sæti með stigi minna en á leik inni.