Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vígreifur Trump skammar vini jafnt sem fjendur

27.06.2019 - 05:51
Erlent · Asía · Bandaríkin · G20 · Indland · Japan · Kína · Víetnam · Þýskaland · Evrópa · Norður Ameríka · Viðskipti · Stjórnmál
President Donald Trump waves as he heads back to Air Force One at Elmendorf Air Force Base in Alaska., Wednesday, June 26, 2019, after greeting troops during a refueling stop. Trump is heading to the G-20 in Japan, his third overseas trip in a month facing a flurry of international crises, tense negotiations and a growing global to-do list. (AP Photo/Susan Walsh)
Donald Trump veifar í kveðjuskyni áður en hann gengur aftur um borð í forsetaflugvélina eftir bensínstopp í Anchorage í Alaska á leiðinni til Osaka í Japan, þar sem leiðtogar G20-ríkjanna funda næstu daga. Mynd: AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lætur skammirnar ganga yfir hverja þjóðina á fætur annarri í aðdraganda leiðtogafundar G20-ríkjanna, þar sem 19 stærstu iðnríki heims og Evrópusambandið eiga fulltrúa. Í viðtali sem sýnt var á sjónvarpsstöðinni Fox Business í gær, sama dag og forsetinn lagði af stað til Osaka, þar sem leiðtogafundurinn fer fram, fór hann hörðum orðum um Kína, Víetnam, Þýskaland og Japan. Í morgun bættist svo Indland á lista ríkja sem Trump lætur heyra það fyrir fundinn.

Fréttaskýrendur hafa spáð því að leiðtogafundur G20 ríkjanna muni markast mjög af viðskiptadeilum Bandaríkjastjórnar við æ fleiri ríki víðsvegar um heim. Viðtalið við Trump í gær og færsla hans á Twitter í morgun benda eindregið til þess að sú spá muni ganga eftir.  

Nóg svigrúm til frekari refsitolla á kínverskan varning

Bandaríkin hafa þegar hækkað tolla á kínverskan varning að verðmæti 200 milljarða Bandaríkjadala í yfirstandandi viðskiptastríði stórveldanna, en 
Í viðtalinu á Fox Business varar Trump Kínverja við því, að þeir megi eiga von á enn meiri refsitollum, sjái þeir ekki að sér og semji. „Þið [flytjið inn varning] fyrir 325 milljarða sem ég hef ekki skattlagt enn - það er tímabært að skattleggja þetta, að leggja refsitolla á þetta," sagði forsetinn og beindi orðum sínum til Pekingstjórnarinnar.

Allir svína á Bandaríkjunum en Víetnamar eru verstir

Trump ýjaði að því að refsitollar yrðu mögulega lagðir á innflutning frá Víetnam í náinni framtíð og sagði landið öllum öðrum blygðunarlausara í misnotkun sinni á vináttu og viðskiptavild annarra þjóða.

„Mörg fyrirtæki eru að flytja til Víetnam, en Víetnam misnotar vináttu okkar jafnvel enn meira en Kína," sagði Trump. Kína og Víetnam eru þó ekkert einsdæmi hvað þetta snertir, segir forsetinn, heldur nýta þau sér bara alþjóðlegt kerfi sem að hans mati er Bandaríkjunum afar mótsnúið. „Næstum öll lönd í heiminum notfæra sér Bandaríkin gríðarlega. Það er alveg ótrúlegt," sagði Trump.

Evrópa, Þýskaland og Japan ekki undanskilin

Í viðtalinu á Fox sagði Trump Þýskaland, eitt nánasta og tryggasta bandalagsríki Bandaríkjanna um áratugaskeið, vera trassa, þar sem það trassaði að borga sinn hlut í rekstri Nató.

„Þannig að Þýskaland borgar Rússlandi milljarða á milljarða ofan fyrir orku," sagði forsetinn, „þeir láta Rússa fá milljarða dollara, en samt eigum við að verja Þýskaland og Þýskaland er trassi!"

Raunar eru öll Evrópuríki sek um að færa sér vináttu Bandaríkjanna í nyt, til að hagnast á henni á kostnað Bandaríkjanna, segir forsetinn.

Gestgjafar leiðtogafundarins, Japanar, fá líka að kenna á gremju Trumps, sem þó hefur ítrekað lofað samband þjóðanna og vináttu í hástert síðan hann tók við forsetaembættinu, enda Japan mikilvægasti bandamaður Bandaríkjanna í Asíu. Þar hefur Bandaríkjaher verið með mikið lið og margar herstöðvar allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar til okkar daga.

„Ef ráðist verður á Japan, þá munum við heyja þriðju heimstyrjöldina. Við munum bregðast við og verja þá þótt það kosti bæði mannslíf og fjármagn,“ sagði Trump. „En ef það verður ráðist á okkur, þá þurfa Japanir ekki að hjálpa okkur. Þeir geta horft á það í Sony-sjónvarpi.“ 

Svar Indverja við refsitollum Bandaríkjanna „óásættanlegt“

Í morgun beindi Trump gremju sinni svo að Indverjum, sem hann segir hafa lagt „óásættanlega“ refsitolla á bandarískan varning. „Ég hlakka til að tala við Modi forsætisráðherra um þá staðreynd að Indland, sem hefur beitt mjög háum tollum gegn Bandaríkjunum í mörg ár, skuli hafa hækkað tollana enn meira núna nýlega. Þetta er óásættanlegt og það verður að fella tollana niður!" skrifar forsetinn á Twitter.

Indverjar hækkuðu nýverið tolla á 28 vörutegundir sem fluttar eru inn frá Bandaríkjunum, þar á meðal möndlur, valhnetur og epli. Með þessu brást Indlandsstjórn við refsiaðgerðum Bandaríkjamanna í þeirra garð; aðgerða sem gripið var til þar sem Indverjar flytja enn inn olíu frá Íran, þrátt fyrir einhliða bann Bandaríkjanna við slíku.

Indverjar fengu tímabundna undanþágu frá refsiaðgerðunum en hún rann út 5. júní og því eru nú lagðir tollar á indverskan innflutning til Bandaríkjanna að verðmæti allt að 5,6 milljarða dollara, sem áður var tollfrjáls.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV