Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vigdís vill ekki svara fyrir ummæli sín

03.03.2014 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, vill ekki tjá sig um ummæli sín um vefmiðilinn Kvennablaðið.

Vigdís hvatti á Facebook-síðu sinni til þess að snyrtivörufyrirtæki hætti að auglýsa á miðlinum, en stór auglýsing frá fyrirtækinu var fyrir ofan umfjöllun um Vigdísi.

Ummæli þingmannsins vöktu hörð viðbrögð og sama dag sendi stjórn Blaðamannafélags Íslands frá sér ályktun þar sem félagið fordæmir tilraunir til að vega að skoðana - og tjáningafrelsi í landinu. Þá segir að ekki verði þolað að fólk í valdastöðum reyni að beita áhrifum sínum til þess að vega að tilverugrundvelli fjölmiðli vegna hlutverks þeirra að birta skoðanir. 

Ekki hefur náðst í Vigdísi undanfarna daga vegna málsins, en þegar fréttastofa náði tali af henni í dag, baðst hún undan viðtali og sagði málið orðið gamalt.