Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vígamenn myrtu prest og sóknarbörn

13.05.2019 - 04:11
epa05104418 A soldier secures a street outside the Splendid Hotel in Ouagadougou, Burkina Faso, 15 January 2016. At least 20 people were killed on 15 January in a terrorist attack on a restaurant and hotel in the capital of the western African country of
Hryðjuverkamenn úr röðum öfgasinnaðra íslamista hafa einnig gert mannskæðar árásir í Ougadougu síðustu misseri. 30 fórust í árás á Splendid-hótelið þar í borg í janúar 2016.  Mynd: EPA
Prestur og fimm sóknarbörn voru myrt í árás byssumanna á kaþólska kirkju í bænum Dablo í Burkina Faso í gærmorgun. Á milli 20 og 30 vopnaðir menn ruddust inn í kirkjuna og skutu á kirkjugesti. AFP fréttastofan hefur eftir bæjarstjóra Dablo, Ousmane Zongo, að árásarmennirnir hafi loks kveikt í kirkjunni, nokkrum verslunum og litlu kaffihúsi áður en þeir æddu að næstu heilsugæslustöð og hrifsuðu ýmislegt með sér þaðan. Loks kveiktu þeir í bíl yfirhjúkrunarfræðings.

Zongo segir íbúa Dablo skelfingu lostna. Fólk haldi sig heima fyrir og ástandið sé eins og í draugabæ. Dablo er í norðurhluta landsins, í héraðinu Sanmatenga. Aðeins tvær vikur eru síðan árás var gerð á kirkju kristinna mótmælenda í Silgadji, sem einnig er í norðurhluta landsins. Þar féllu einnig sex, prestur og fimm kirkjugestir. Öfgahreyfingar íslamista hafa hreiðrað um sig á svæðinu og beina árásum sínum jafnt gegn kristnum og múslimum. AFP hefur eftir heimildamönnum úr öryggissveitum landsins að öfgamennirnir telji suma múslimaklerki ekki nægilega íhaldssama og saka þá um að standa með yfirvöldum. Vígahreyfingar hafa ekki aðeins beint árásum sínum að tilbeiðslustöðum, því í síðasta mánuði gerðu öfgamenn árás á skóla í austurhluta landsins þar sem fimm kennarar og starfsmaður skólans voru myrtir.

Síðan íslamistar hófu herferð sína árið 2015 hafa nærri 400 látið lífið vegna ofbeldisverka þeirra og yfir fjórar milljónir orðið að yfirgefa heimili sín.