
Vígamenn myrtu prest og sóknarbörn
Zongo segir íbúa Dablo skelfingu lostna. Fólk haldi sig heima fyrir og ástandið sé eins og í draugabæ. Dablo er í norðurhluta landsins, í héraðinu Sanmatenga. Aðeins tvær vikur eru síðan árás var gerð á kirkju kristinna mótmælenda í Silgadji, sem einnig er í norðurhluta landsins. Þar féllu einnig sex, prestur og fimm kirkjugestir. Öfgahreyfingar íslamista hafa hreiðrað um sig á svæðinu og beina árásum sínum jafnt gegn kristnum og múslimum. AFP hefur eftir heimildamönnum úr öryggissveitum landsins að öfgamennirnir telji suma múslimaklerki ekki nægilega íhaldssama og saka þá um að standa með yfirvöldum. Vígahreyfingar hafa ekki aðeins beint árásum sínum að tilbeiðslustöðum, því í síðasta mánuði gerðu öfgamenn árás á skóla í austurhluta landsins þar sem fimm kennarar og starfsmaður skólans voru myrtir.
Síðan íslamistar hófu herferð sína árið 2015 hafa nærri 400 látið lífið vegna ofbeldisverka þeirra og yfir fjórar milljónir orðið að yfirgefa heimili sín.