Vígamenn myrtu 15 óbreytta borgara í Kongó

epa03505525 YEARENDER 2012 NOVEMBERM23 rebels stand guard outside the Goma football stadium as the M23 rebel spokes person, Lt Col Vianney Kazarama, gives a speech to a crowd of thousands in Goma, Congo DRC, 21 November 2012. Kazarama declared Goma to be under the control of M23, urging civil servants to return to work.  EPA/TIM FRECCIA
Fjölmargar vopnaðar sveitir uppreisnarmanna herja á almenning og yfirvöld í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og hafa gert um árabil. Þessi mynd af liðsmönnum M23-samtakanna er tekin 2012, þegar samtökin freistuðu þess að steypa stjórninni af stóli og tóku öll völd í stórborginni Goma. Ári síðar lognaðist hreyfingin út af, en aðrar hafa komið í hennar stað. Mynd: epa
Vígasveitir uppreisnarmanna í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó myrtu minnst 15 óbreytta borgara á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags og hafa nú myrt hátt í 40 manns síðan stjórnarherinn hóf sókn gegn þeim um síðustu mánaðamót. Vígasveitirnar tilheyra samtökum uppreisnarmanna sem kalla sig Sameinuðu lýðræðisfylkinguna, SLF, og halda einkum til í frumskógunum nærri landamærum Úganda.

Stjórnarherinn hóf stórfelldar aðgerðir um mánaðamótin með það fyrir augum að uppræta vígasveitirnar, með stuðningi Friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt frétt Al Jazeera bregst SLF iðulega við árásum stjórnarhersins með árásum á óbreytta borgara. Á því varð engin breyting nú.

Hroðaverk helgarinnar beindust meðal annars að þorpsbúum í þorpinu Mbau og notuðu ódæðismennirnir sveðjur við illvirki sín. Þar drápu þeir átta manns, þar af sex úr sömu fjölskyldunni. Þá myrtu þeir sjö pygmýja í skóginum skammt frá Mbau og hengdu lík þeirra upp í tré. „Uppreisnarmennirnir ráðast á óbreytta borgara til að skapa ringulreið og ótta meðal almennings,“ hefur Al Jazeera eftir Donat Kibwana, svæðisstjóra með aðsetur í nálægri borg. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi