Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vígamenn með yfir 100 þúsund í haldi í Mosúl

epa05896860 Iraqi displaced people from Mosul, who were forced to flee their homes due the fighting between Iraqi forces and Islamic state group (IS), clean some dishes at Hamam al-Alil camp, southern Mosul, north of Iraq, 07 April 2017  (Issued 08 April
Um það bil hálf milljón íbúa Mosúl heldur til í búðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa komið upp í Írak. Mynd: EPA
Vígamenn Íslamska ríkisins, sem enn eru í borginni Mosúl í Írak, kunna að vera með yfir hundrað þúsund almenna borgara í haldi. Bruno Geddo, fulltrúi flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Írak, greindi fréttamönnum frá þessu í dag. Fólkið nota hryðjuverkamennirnir til að skýla sér fyrir árásum írakska stjórnarhersins, sem sótt hefur inn í vesturhluta borgarinnar undanfarnar vikur.

Vígasveitirnar hertóku Mosúl árið 2014. Þær hafa misst alla austurborgina og hluta vesturhlutans. Gamli borgarhlutinn er enn á þeirra valdi og þar eru flestir gíslar hryðjuverkamannanna í haldi, að því er Bruno Geddo greindi fréttamönnum frá. Að hans sögn versna lífsskilyrði í gamla borgarhlutanum stöðugt. Þar er lítið orðið um matvæli, vatn og aðrar lífsnauðsynjar.  Rafmagn hefur verið tekið af húsum. Leyniskyttur eru hvarvetna og skjóta þá sem reyna að flýja.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að 862 þúsund íbúar Mosúl hafi flúið frá því að bardagar um borgina hófust. Hátt í 200 þúsund hafa snúið til baka. Hinir halda til í þrettán búðum sem flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa komið upp eða hafa fengið inni hjá ættingjum eða öðrum sem eru reiðubúnir að skjóta skjólshúsi yfir flóttafólkið.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV