Hryðjuverkamenn úr röðum öfgasinnaðra íslamista hafa einnig gert mannskæðar árásir í Ougadougu síðustu misseri. 30 fórust í árás á Splendid-hótelið þar í borg í janúar 2016. Mynd: EPA
Minnst fimmtán létu lífið og tveir særðust alvarlega í árás byssumanna á mosku í Búrkína Fasó á föstudagskvöld. Árásarmennirnir réðust inn á meðan bænastund var í mosku í þorpinu Salmossi. Fjölmargir íbúar þorpsins flýðu það eftir árásina. Að sögn BBC hefur enginn hópur lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Mörg hundruð hafa látið lífið í árásum vígamanna í landinu síðustu ár. Flestir eru vígamennirnir herskáir íslamistar. Að sögn flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóððanna er talið að um 250 þúsund íbúar Búrkína Fasó hafi orðið að flýja heimili sín vegna átaka í landinu síðustu þrjá mánuði.