Viðvörunarkerfi komið upp í Reynisfjöru

15.06.2018 - 10:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Komið hefur verið upp viðvörunarkerfi fyrir hættulegar öldur í Reynisfjöru en þar hafa orðið tvö dauðsföll á undanförnum tveimur árum og margir verið hætt komnir í brimi þar. Fjaran er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna og því telur Vegagerðin nauðsynlegt að koma á viðvörunarkerfi þar sem hægt er að fylgjast með aðstæðum í fjörunni. 

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni er Reynisfjara vinsæl meðal ferðamanna vegna brims sem af verði mikið sjónarspil. Því þyngri öldur sem brotna á strönd og klettum, því tilkomumeira. Það gerir það að verkum að aðdráttarafl svæðisins er meira því viðsjárverðari sem aðstæðurnar eru og af þeim sökum mikilvægt að koma upp viðvörunarkerfi þar sem varað er við hættulegum aðstæðum.

Viðvörunarkerfið er hluti af Upplýsingakerfi um veður og sjólag á vefsíðu Vegagerðarinnar undir liðnum Ölduspá á grunnslóð. Framkvæmdasjóður ferðamála í þágu öryggismála fjármagnaði verkefnið.

Kerfið í Reynisfjöru hið sjötta sinna tegundar sem Vegagerðin kemur upp en fyrir eru ölduspár fyrir Faxaflóa, Skjálfanda, Grynnslin við Hornafjörð, svæðið milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og Breiðafjörð.

Það er þó frábrugðið þeim sem fyrir eru því það er hugsað til upplýsingar fyrir þá sem eru í landi, ekki sjófarendur. Kerfið veitir upplýsingar um við hvaða aðstæður brim og öldugangur er hættulegur sem er gert með því að reikna ölduna upp að ströndinni og kanna ölduhæð og öldulengd í samanburði við ákveðin áhættumörk sem enn er verið að þróa.

Hættustuðull er reiknaður út frá spá um ölduhæð svokallaðrar kenniöldu við 10 metra dýpi utan við Kirkjufjöru, Reynisfjöru og Víkurfjöru fjóra daga fram í tímann á þriggja daga fresti, auk sveiflutíma öldunnar og sjávarhæðar. Mismunandi litir gefa til kynna hve mikil hætta stafar af öldum í fjörunni hverju sinni.

Að mati Vegagerðarinnar mun kerfið gagnast löggæslu eða öðrum eftirlitsaðilum við að meta og sjá fyrir aðstæður þar sem vöktunar í fjörunni eða annarra aðgerða er þörf vegna mikils brims. Hugsanlegt er að í framtíðinni verði komið upp rauðum ljósum sem blikki þegar aðstæður eru hættulegar, ferðamönnum til upplýsingar.

Leitað verður eftir viðbrögðum íbúa á svæðinu og ferðaþjónustuaðila sem heimsækja svæðið við kerfinu og unnið að frekari þróun þess.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi