Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Víðtæk þjóðhagsleg áhrif sjómannaverkfalls

07.02.2017 - 12:28
Mynd með færslu
Ólafsvíkurhöfn. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Áhrifa sjómannaverkfalls gætir víða. Bæjarstjórinn í Snæfellsbæ hefur verulegar áhyggjur af áhrifum á fjölskyldur sjómanna og fiskverkafólks, áhrifum á smærri fyrirtæki sem og á rekstur sveitarfélaga.

Sjávarútvegsráðherra hefur skipað starfshóp til að taka út þjóðhagsleg áhrif af sjómannaverkfallinu, sem nú hefur staðið í tæpar átta vikur. Gert er ráð fyrir að niðurstöðu hópsins verði skilað í lok vikunnar. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, situr í starfshópnum, hann hefur verulegar áhyggjur af langtímaáhrifum verkfallsins: „fyrst og fremst að sjómenn og fiskverkafólk hefur ekki atvinnu og hefur þar með ekki tekjur. Það hefur gífurleg áhrif á þessar fjölskyldur og þar með sveitarfélagið. Það sem mér finnst líka að er ekki gott er að þetta bitnar mjög hart á smærri fyrirtækjum sem eru að þjónusta sjávarútveginn og þetta bitnar mjög hart á.“ 

Áhyggjur af smærri fyrirtækjum

Kristinn hefur miklar áhyggjur af því að mörg smærri fyrirtæki lifi sjómannaverkfallið ekki af: „Það er náttúrulega gífurlegur samdráttur, sérstaklega hjá þjónustuaðilum. Þeir hafa svo margfalt minni tekjur. Þetta eru einstaklingar og fyrirtæki sem eru að þjónusta þennan atvinnuveg en meðan þú hefur ekki tekjustreymi og þarft að standa undir launagreiðslum og annað, það er grafalvarlegt því það verður ekki bætt þó verkfallið leysist. Ég vona að það leysist sem fyrst því að sum af þessum fyrirtækjum þola ekki mikið lengur að vera nánast tekjulaus eins og þetta er í dag.“

Áhrif á sveitarfélög

Sjómannaverkfallið hefur líka haft mikil áhrif á rekstur sveitarfélagsins. „Við erum að reka okkar þjónustu, grunnskóla, leikskóla og alls konar starfsemi og þurfum að borga okkar laun, sem er sjálfsagður hlutur að atvinnurekendur geri. En við höfum ekki tekjur á móti eins og við erum vön að fá þannig að við þurfum að brúa bilið með því að ná okkur í fjármuni annars staðar, hjá bankastofnunum, til að geta staðið við okkar skuldbindingar. Þannig að það kemur strax niður, eins og til dæmis hafnarsjóður, hann hefur nánast engar tekjur en hefur sínar skuldbindingar. Fjárhagslega kemur þetta mjög hart niður á sveitarfélögunum en það er tímabundið, eins og allir vita, það jafnar sig út, vona ég, þegar menn fara aftur á sjóinn.“

 

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV