Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Víðtæk áhrif verkfalls

15.10.2015 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Áhrif verkfalls SFR eru víðtæk en verkfallið tekur til 158 stofnana. Yfir 2500 félagsmenn SFR auk rúmlega ellefu hundruð félagsmanna SLFÍ eru í verkfalli. Starfsemi Landspítalans raskast talsvert eins sem tafir urðu á millilandaflugi.

Páll Matthíasson forstjóri Landsspítalans segir að dagdeildir og göngudeildir séu á talsvert minni afköstum en vanalega og fimm daga deildinni á Landakoti hefur verið lokað. Tölvudeild og símaver eru á tæplega helmings afköstum. Framkvæmdastjórn spítalans fundar nú í hádeginu um málið. Hann segir að sjúklingar hafi sýnt ástandinu mikinn skilning. „Ég held að fólk viti hvað í gangi er og er því miður orðið þessu vant eins og starfsfólkið. En hins vegar er það skelfilegt að við séum að sigla inn í verkföll næstum ári efit að þessi hrina byrjaði,“ segir Páll.

Páll óttast að ástandið verði erfitt ef verkfallið heldur áfram. „Við tökum þetta dag frá degi en ég hef þá trú að ástandið verði fljótt býsna erfitt því þetta er víðfermt verkfall sem lítur bæði beint að þjónustu við sjúklinga en einnig alls kyns stoðþjónusta.“

Biðraðir á álagstíma á Keflavíkurflugvelli
Allt að klukkustundar tafir urðu á flugi á álagstíma á Keflavíkurflugvelli í morgun vegna verkfallsins. Nú er ástand nokkuð eðlilegt að sögn upplýsingafulltrúa Isavia. Biðraðir mynduðust við vegabréfaeftirlit en farþegar sýndu ró og skilning. Þjónustuliðar Isavia og sjálfboðaliðar af skrifstofum fyrirtækisins sáu um að veita farþegum upplýsingar og færðu fólki vatn og súkkulaði. Búast má við því að tafir verði á flugi á álagstíma seinni hluta dags.

Á sjúkrahúsi Akureyrar þurfti að kalla eftir undanþágum en þó hefur ekki þurft að fresta aðgerðum eða loka deildum. Aukið álag er á starfsfólki en starfsemi hefur gengið áfallalaust.