Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðskiptaþvinganir gegn Íran hefjast á mánudag

02.11.2018 - 16:09
epa06800086 US Secretary of State Mike Pompeo speaks to the media about the upcoming meeting between US President Donald J. Trump and North Korean leader Kim Jong-un in the J.W. Marriott in Singapore, 11 June 2018. US President Trump and North Korean
Pompeo í Síngapúr í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Átta ríki fá tímabundið að halda áfram að kaupa olíu af Íran eftir að Bandaríkin leggja viðskiptabann á ríkið að nýju á mánudag. Frá þessu greindi Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag. Undanþágurnar verða veittar ríkjum sem þegar hafa minnkað olíuviðskipti sín við Íran. 

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn á sama fundi að Bandaríkin hafi tekið skýrt fram að þau vilji að íranskar fjármálastofnanir fái ekki lengur aðgang að SWIFT-fjármálakerfinu frá og með mánudeginum. Þá verður 700 fyrirtækjum, einstaklingum flugvélum og skipum bætt á lista Bandaríkjanna yfir þá sem verður meinaður aðgangur að alþjóðlegum fjármála- og viðskiptamörkuðum.

Viðskiptaþvinganirnar eru liður í umfangsmeiri aðgerðum Bandaríkjastjórnar gegn kjarnorku- og flugskeytaverkefnum Írans, auk stuðnings ríkisins við hersveitir í Jemen, Sýrlandi, Líbanon og á öðrum svæðum Mið-Austurlanda. Pompeo segir markmið þvingananna að svipta ríkið þeim fjármunum sem það notar til að dreifa dauða og eyðileggingu um heiminn. Vonast hann til þess að aðgerðirnar dugi til að fá Íran til þess að hætta stuðningi sínum við vígasveitir og haga sér eins og eðlilegt ríki.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, dró Bandaríkin úr kjarnorkusáttmálanum við Íran sem stjórn forvera hans, Baracks Obama, undirritaði 2015. Auk Bandaríkjanna áttu Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland aðild að sáttmálanum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV