Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Viðskiptaráð: Fjárlög tæplega hallalaus

15.10.2015 - 07:46
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristín Pálsdóttir - RÚV
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, telur að fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár geti tæplega talist hallalaust eins og ríkisstjórnin hefur boðað. Gert er ráð fyrir 15 milljarða afgangi en Viðskiptaráð telur að launakostnaður sé þar verulega vanáætlaður.

Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs Íslands sem send var fjárlaganefnd í þessari viku.

Þar er vísað til athugasemda í fjárlagafrumvarpinu þar sem fram kemur að gengið hafi verið frá talnabálki frumvarpsins í júní og því sé ekki tekið mið af úrskurði gerðardóms í ágúst í kjaradeilu BHM og hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Í umsögn Viðskiptaráðs segir að séu launabreytingar teknar með reikninginn megi því áætla að fjárlögin skili halla upp á einn milljarð - ekki afgangi upp á 15 milljarða.

Viðskiptaráð er heldur ekki hrifið af því að krafa um samdrátt útgjalda hjá ráðuneytum og stofnunum sé horfin. Þess í stað sé nú stofnað til nýrra útgjalda sem nemi 12 milljörðum. „Þetta er gert þrátt fyrir að efnahagsleg rök hnígi að því að auka aðhald í opinberum rekstri - ekki slaka á því - til að draga úr ofþenslu á því uppgangstímabili sem nú er hafið hérlendis,“ segir í umsögninni.

Viðskiptaráð fagnar þó þeirri skynsamlegu stefnu að greiða niður skuldir og innleiða tímabærar skattalækkanir. Hratt vaxandi launakostnaður og slökun á aðhaldskröfum valdi áhyggjum. Löggjafinn ætti að horfa til fjölmargra tillagna hagræðingarhópsins til að finna leiðir til að draga úr opinberum útgjöldum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV