Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Viðreisnarfólk fór mannavillt á Pavel og Pawel

Mynd með færslu
 Mynd:  - FIBA

Viðreisnarfólk fór mannavillt á Pavel og Pawel

09.10.2016 - 14:37
Körfuboltamanninum Pavel Ermolinski brá heldur betur í brún þegar honum var heldur óvænt bætt inn í lokað spjall forystufólks Viðreisnar um auðlindagjald á Facebook. „Rosalega fyndið,“ segir Pavel í samtali við fréttastofu en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Honum hefur væntanlega verið ruglað við frambjóðandann Pawel Bartoszek.

Þorsteinn Víglundsson, sem leiðir lista Viðreisnar í Reykjavík norður,  staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Þorsteinn segir að á spjallþræðinum hafi átt að ræða grein sem frambjóðandi flokksins ætlaði að skrifa um auðlindagjaldið. Sá vildi athuga hvort aðrir fulltrúar flokksins hefðu einhverjar athugasemdir við greinina og ætlaði væntanlega að fá skoðun stærðfræðingsins Pawels Bartoszek sem skipar annað sætið á lista Viðreisnar í Reykjavík suður. En bætti landsliðsmanninum og körfuboltahetjunni Pavel Ermolinski í hópinn.

Samkvæmt vefsíðu Hagstofunnar eru 184 sem bera nafnið „Pawel“ sem fyrsta eiginnafn en aðeins 18 nafnið „Pavel“.  Þetta er raunar ekki í fyrsta skipti sem Pawel lendir í nafnaruglingi. Í fyrra kom það mörgum á óvart þegar Pawel var sagður hafa unnið Reykjavíkurmaraþonið.  Mótshaldarar höfðu þá ruglað honum saman við landa hans, Bartosz Olszewski.