Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Viðreisn upp fyrir Framsókn og Samfylkingu

24.06.2016 - 07:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýstofnaður flokkur Viðreisnar mælist fjórði stærsti stjórnmálaflokkur landsins í nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Píratar mælast stærstir, með 28 prósenta fylgi. Næstur kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 19,7 prósent. Báðir flokkar tapa nokkru fylgi frá síðustu könnun.

Vinstri græn bæta hins vegar við sig fylgi og mælast með 17 og hálft prósent. Fylgi Viðreisnar er 9,7 prósent í könnuninni en fylgi Framsóknarflokks er 0,2 prósentustigum lægra. Samfylkingin mælist með 9 prósenta fylgi og Björt framtíð með 4,5 prósent. 

Þrjú þúsund manns eru í netpanel Félagsvísindastofnunar HÍ og fengu könnunina senda. Panellinn samanstendur af tilviljunarúrtaki af fólki frá 18 ára aldri. Svarhlutfall var 49 prósent. Engar upplýsingar eru gefnar um vikmörk í könnuninni.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV