Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Viðreisn ekki mælst minni frá stofnun í vor

30.12.2016 - 17:50
Þingflokkur Viðreisnar 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Samfylkingin eykur fylgi sitt, en aðrir stjórnmálaflokkar standa meira eða minna í stað, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Viðreisn mælist jafnstór og Samfylkingin, og hefur ekki mælst með minna fylgi síðan flokkurinn var formlega stofnaður í vor.

Eina marktæka breytingin milli mánaða er á fylgi Samfylkingarinnar, sem nú mælist 7,5%, rúmlega tveimur prósentustigum meira en í síðasta mánuði. Viðreisn mælist með 7,4% fylgi, og hefur fylgi við flokkinn ekki verið minna frá því hann var formlega stofnaður í vor. Björt framtíð mælist með 8,7%, Framsóknarflokkurinn með 8,9%, Píratar með 14,6% og Vinstri græn með 20,0%. Sjálfstæðisflokkurinn er með 29,0% fylgi samkvæmt könnuninni. Flokkar eða framboð, sem ekki hafa mann á þingi, mælast samtals með 4%, þar af hefur Flokkur fólksins 2,2% og Dögun 1%.

7,1% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp, og 6,3% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Þeir þrír flokkar, sem nú reyna að mynda ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn, mælast samtals með 45,1% fylgi í könnuninni. Flokkarnir fimm, sem áður reyndu að koma saman stjórn, Vinstri græn, Píratar, Björt framtíð, Viðreisn og Samfylkingin, mælast samtals með 58,2% fylgi. Núverandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, hafa samtals 37,9% fylgi samkvæmt könnuninni.

Könnunin var netkönnun gerð dagana 1.-29. desember. Heildarúrtak var 4.192 og þátttökuhlutfall rúmlega 59,1%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,8-1,9%. Fólk í úrtaki var valið með handahófi úr viðhorfahópi Gallups.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV