Viðræðurnar í Alþingishúsinu í fyrramálið

16.11.2016 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: ©Þórgunnur Oddsdóttir
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hyggst hefja viðræður við formenn stjórnmálaflokkanna í forsetaherberginu í Alþingishúsinu í fyrramálið. Lagt er upp með að hitta þá í öfugri stærðarröð flokkanna. Fyrst hittir hún Loga Má Einarsson, formann Samfylkingarinnar, klukkan hálf tíu og svo koll af kolli.

Katrín ítrekaði þá skoðun sína að loknum fundi með forsetanum að hennar fyrsti kostur í stjórnarsamstarfi væri ríkisstjórn mynduð frá miðju til vinstri. 

Eldri borgarar reiðubúnir að hýsa viðræðurnar

Fyrr í dag þótti ólíklegt að fundirnir færu fram í Alþingishúsinu sökum framkvæmda sem þar standa yfir við breytingar á fundarherbergjum. Greint var frá því í fréttum RÚV. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni stökk þá til og lýsti sig reiðubúið til að lána húsnæði sitt í Stangarhylnum undir stjórnarmyndunarviðræðurnar. 

Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segir að fundur hafi staðið yfir hjá félaginu um lífeyrismál þegar fréttin birtist og félagið ákveðið að bregðast við og bjóða fram húsnæðið til að vekja athygli á þeim kjörum sem eldri borgarar í landinu búa við. „Og að það séu að koma fram ýmsir annmarkar á lögum um almannatryggingar sem eiga að koma til framkvæmda um áramótin.“

Eldri borgarar vilji koma því á framfæri við þá sem taka við stjórnartaumunum að taka til í lögunum og laga það sem betur má fara. „Þannig að hagur eldri borgara vænkist til muna.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi