Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Viðræðurnar fóru út um þúfur

23.11.2016 - 17:38
Mynd: RÚV / RÚV
Ekkert verður af því að fimm flokka ríkisstjórn verði mynduð undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Þetta varð ljóst á fundi fulltrúa Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar sem hófst klukkan rétt rúmlega fimm og lauk skömmu síðar. Katrín er búin að tilkynna Guðna Th. Jóhannessyni forseta um að ekki takist að mynda ríkisstjórn á grundvelli þeirra viðræðna sem staðið hafa yfir að undanförnu.

Katrín fékk stjórnarmyndunarumboð fyrir viku síðan og ræddi næsta dag við formenn og samninganefndir allra annarra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Eftir það ræddi hún nokkrum sinnum formlega við fulltrúa fjögurra flokka. Það skilaði sér að lokum í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum sem raknaði upp úr í dag. 

Ekki allir með sannfæringu fyrir viðræðum

Fundinum sem hófst klukkan rétt rúmlega fimm í dag hafði verið lýst sem úrslitafundi um hvort stjórnarmyndun flokkanna fimm tækist eða ekki. Katrín sagði í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur að hún hefði tilkynnt forseta fimm mínútum fyrir þann fund að stjórnin héldi velli ef stjórnarmyndun tækist.

Katrín segir að ekki hafi allir flokkar verið með sannfæringu fyrir stjórnarmynduninni. Hún hefði því ákveðið að viðræðunum væri lokið, þar sem ekki væru forsendur fyrir því að halda þeim áfram. Katrín segir að hún hefði samt viljað láta reyna á það hvort tækist að mynda ríkisstjórn. Það væri þó málefnalegur ágreiningur á milli flokkanna um hvernig ætti að fjármagna uppbyggingu í til dæmis heilbrigðismálum. Að auki væri ágreiningur um sjávarútvegsmál. 

„Mér finnst þetta mjög leiðinlegt,“ sagði Katrín en kvaðst þurfa að vera raunsæ.

Sefur á því hvort hún skili stjórnarumboðinu

Katrín er ekki búin að taka ákvörðun um hvort hún skili stjórnarmyndunarumboði sínu eða reyni aðrar leiðir til stjórnarmyndunar. „Ég ætla að fá að sofa á þessu,“ svaraði hún aðspurð hvort hún myndi skila umboðinu í kvöld.

Ágreiningur um sjávarútveg og skattahækkanir

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður sem fylgst hefur með atburðarásinni í dag sagði í kvöldfréttum útvarps vitað að langt sé milli Vinstri grænna og Viðreisnar í sumum málum, til dæmis sjávarútvegsmálum og afstöðu til skattahækkana.

Píratar ósáttir

Píratar sendu frá sér fréttatilkynningu skömmu eftir að slitnaði upp úr viðræðunum. Þeir lýstu miklum vonbrigðum með að sögulegt tækifæri til að mynda umbótastjórn hafi ekki verið nýtt sem skyldi. Þeir segja málefni sín um nýja stjórnarskrá, réttláta dreifingu arðs af auðlindum, aðkomu almennings að ákvarðanatöku og endurreisn heilbrigðisþjónustu ekki hafa komið í veg fyrir stjórnarmyndun.

Píratar segja líka áhugavert að reynt hafi verið að þyrla upp ryki og skapa óvissu um stefnumál sem ekki hafi verið sett á oddinn fyrir kosningar.

Ekki búið að ræða um skattabreytingar

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir að umræður um skattabreytingar hafi ekki verið hafnar. Hann hefði orðið minna hissa á viðræðuslitum ef menn hefðu verið búnir að láta reyna á slíkar viðræður. Hann telur ljóst að Viðreisn hafi verið búin að ákvæða að hætta viðræðum því Katrín hafi greint á því við upphaf fundarins klukkan fimm að viðræðunum væri lokið.