Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðræður á Akranesi ganga vel

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Viðræður Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra á Akranesi ganga vel og línur ættu að vera farnar að skýrast um næstu helgi, að sögn oddvita Framsóknar og frjálsra, Elsu Láru Arnardóttur.

„Við gefum okkur góðan tíma og vöndum okkur. Við höfum mörg tækifæri hér og viljum vanda okkur við þessa vinnu,“ segir Elsa Lára. Fulltrúar flokkanna hafa gert drög að málefnasamningi kjörtímabilsins. Enn er þó talsvert í land og mál sem enn á eftir að ræða, að sögn Elsu Láru. „Línur ættu að vera farnar að skýrast í kringum næstu helgi, um það hvort af samstarfinu verði.“

Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð voru í meirihluta á Akranesi á síðasta kjörtímabili. Þá fékk Sjálfstæðisflokkur hreinan meirihluta en var samt sem áður í meirihlutasamstarfi með Bjartri framtíð, sem bauð ekki fram í ár. 

Sjálfstæðisflokkur fékk fjóra menn kjörna um síðustu helgi. Flokkurinn missti einn mann síðan 2014. Samfylking fékk þrjá og Framsókn og frjálsir tvo. Báðir flokkar bættu við sig manni síðan fyrir fjórum árum.