
Viðhalda stofni íslensku forystukindarinnar
Forystufé hefur verið hluti af sauðfjárrækt á Íslandi svo lengi sem íslenska sauðkindin hefur verið til. Talið er að um 1000 forystukindur séu í landinu og hópur bænda leggur þó nokkra vinnu í að viðhalda stofninum.
Bæði gaman og gagn af forystufé
Sæþór Gunnsteinsson, bóndi í Presthvammi í Aðaldal, á ríflega tíu forystukindur sem skera sig talsvert úr í fjárhúsinu. Snaggaralegar og léttbyggðar skepnur, talsvert frábrugðnar kindunum sem eru ræktaðar til þess eins að búa til kjöt. Og hann segir að þessi ræktun hjá sér verði klárlega að teljast sem hobbý og hálfgerð sérviska. „Þetta bara fylgir manni dálítið og ég hef gaman af þessu. Og það er gaman að þeim, þær eru léttar á sér og það er oft gagn af þeim, það er ekki það,“ segir hann.
Hvergi annarsstaðar til í heiminum
En hvaða eiginleika hefur góð forystukind? „Hún á náttúrulega að vera róleg,“ segir Sævar. „En alltaf að fara á undan hjörðinni og að koma henni áfram. Alltaf örugg að fara inn og í gegnum hlið og að spinna safnið á eftir sér.“ Þetta nýtist vel í göngum á haustin þegar forystukindur leiða safnið heim, segir Sæþór. Eftir að vetrarbeit lagðist af hafi hlutverk forystukindanna minnkað talsvert. „En þetta er náttúrulega bara að viðhalda þessum mjög sérstaka stofni. Þetta er nú hvergi til í heiminum annarsstaðar en hér.“
Ræktun á forystufé er í ættinni
Og eins og Sæþór segir er þessi ræktun mikið áhugamál hjá honum og eiginlega ættgengt áhugamál. „Það var gefin út bókin Forystufé, einhverntímann fyrir 1950 held ég og í þeirri bók eru báðir afar mínir. Þannig að þetta er nú svona genetískt vandamál.“