Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðgerðum lokið á Dalvíkurlínu

18.12.2019 - 21:12
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk nú í kvöld og er búið að spennusetja hana. Unnið er að því þessa stundina að færa á milli kerfa svo að hægt verði að aftengja Varðskipið Þór síðar í kvökd. Dalvíkurlínan hefur verið biluð í rúma viku í kjölfar óveðurs sem gekk yfir landið í seinustu viku.

Starfsmaður Rarik á Norðulandi sagði í samtali við fréttastofu að búið sé að spennusetja Dalvíkurlínu. Verið sé að keyra niður spennu á varaaflinu og skipta yfir á Dalvíkurlínuna. Dalvíkingar mega búast við rafmagnstruflunum á meðan þetta á sér stað. Það geti tekið um klukkustund að færa á milli kerfa.

Varðskipið Þór var sent norður til Dalvíkur og hefur skipið verið notað sem varaafl fyrir bæinn síðan fyrir helgi. Þetta er í fyrsta sinn sem varðskipið Þór er nýtt sem hreyfanleg aflstöð. Þór getur flutt tvö megavött af rafmagni í land en það er nóg til þess að halda meðalstóru sveitarfélagi gangandi í neyðartilvikum. 

Í gærkvöld  náðu starfsmenn RARIK að koma rafmagni á alla notendur. Seinast komst rafmagn á í Vestur Húnavatnssýslum.  Rafmagnsleysi hefur sett atvinnulíf og mannlíf á Norðurlandi úr skorðum seinustu vikuna og hafa starfsmenn RARIK og Landsnets unnið dag og nótt að því að gera við raflínur og tengivirki vítt og breytt um landið. 

Landsnet birti meðfylgjandi myndbönd þar sem sjá má aðstæður sem menn hafa þurft að takast á við seinustu daga.

Starfsmenn Landsnets sprengja saman vírinn á Dalvíkurlínu.

Aðstæður hafa verið mjög krefjandi undanfarna viku.