Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Viðbrögð við skýrslu RNA

10.01.2013 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Flestum úrbótum, sem allir þingmenn Alþingis samþykktu að ráðast í, sem viðbrögð við rannsóknarskýrslu Alþingis, er enn ólokið. Frestur sem þingið gaf sjálfu sér til að ljúka þeim, rann út fyrir þremur mánuðum. Öðrum ábendingum hefur flestum verið fylgt.

Eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út vorið 2010 hafa ýmsar nefndir og skýrslur fjallað um þær ábendingar sem þar koma fram, hvernig bæta megi starfshætti stjórnsýslunnar og hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar. Innan stjórnarráðsins hefur nú verið tekið saman hvernig þessum ábendingum hefur verið fylgt eftir, hvaða verkefnum er lokið á þeim tíma sem liðinn er og hverju er ólokið.

Fréttastofa hefur ítrekað óskað eftir þessu yfirliti síðustu mánuði og hefur loks fengið það afhent. Þar kemur fram að brugðist hafi verið við nær öllum tillögum rannsóknarnefndarinnar. Brugðist hafi verið við þeim flestum með nýjum lögum um fjármálafyrirtæki og nýjum stjórnarráðslögum. Tveimur atriðum er ólokið, ekki hafa verið settar reglur um skráningu upplýsinga af fundum, þar sem oddvitar ríkisstjórnarflokka koma saman fram út á við og ekki hafa verið settar reglur um skráningu munnlegra upplýsinga í stjórnsýslunni. Drög að þessum reglum liggja þó fyrir.

Það vekur hins vegar athygli að flestum þeirra verkefna sem kveðið er á um í þingsályktun, sem allir þingmennirnir sextíu og þrír samþykktu, er enn ólokið, þótt Alþingi hafi samþykkt að ljúka þeim fyrir fyrsta október síðastliðinn. Það er búið að endurskoða upplýsingalög, lögin um stjórnarráðið, þingsköpin og um starfsemi á fjármálamarkaði. Annað er enn í vinnslu eða til skoðunar. Þar á meðal endurskoðun á stjórnarskránni, stjórnsýslulögum, lögumum ráðherraábyrgð og Landsdóm, starfsmannalög, lög um fjölmiðla, endurskoðendur, reikningsskil og bókhald.

Enn er til skoðunar hvort fela eigi sjálfstæðri ríkisstofnun að spá fyrir um efnahagshorfur, sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna hefur ekki farið fram - ekki frekar en stjórnsýsluúttekt á Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Rannsókn á falli sparisjóðanna er rétt ólokið.

Mörgum tillögum starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er lokið - sérstaklega með nýjum stjórnarráðslögum, fækkun og stækkun ráðuneyta og siðareglum innan stjórnsýslunnar. Enn eru þó ýmis atriði til skoðunar. Til dæmis að frammistaða æðstu stjórnenda verði reglubundið metin óháðum aðila, að gerð verði greining á mannaflaþörf fyrir Stjórnarráðið, að verkefni sjálfstæðra úrskurðanefnda verði færð inn í ráðuneytin og að skipurit ráðuneyta verði samræmd.

Loks er til athugunar að haga stuðningi við stjórnmálaflokka með markvissari hætti til stuðnings málefnastarfi, að leita leiða til að efla skipulagsheildir með nánari tengslum ráðuneyta og stofnana og með því að sameina stofnanir og að þekking og reynsla utanríkisþjónustunnar verði nýtt betur í samskiptum við erlend ríki. Í innanríkisráðuneytinu er unnið að því að efla upplýsingatækni í opinberri stjórnsýslu.