Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðbrögð Miðflokks sýna hvorki ábyrgð né iðrun

02.08.2019 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðbrögð þingmanna Miðflokksins við áliti siðanefndar benda til að þeir iðrist ekki gjörða sinna, segir forsætisráðherra. Hún segir ummælin á Klaustri hafa einkennst af kvenfyrirlitningu og fötlunarfordómum og séu fullkomlega óafsakanleg. Hún er ekki þeirrar skoðunar að brot á siðareglum eigi að hafa viðurlög.

Gunnar Bragi Sveinsson og Berþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, brutu siðareglur með niðrandi ummælum sínum á barnum Klaustri í nóvember, samkvæmt siðanefnd og sérstakri forsætisnefnd Alþingis.

Kvenfyrirlitning og fötlunarfordómar 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist bera virðingu fyrir áliti siðanefndar og það standi, en hún hafi ekki skipt um skoðun frá því að málið kom fyrst upp í desember. 

„Þarna voru gríðarlega óviðeigandi ummæli látin falla tímunum saman á opinberum vettvangi, sem einkenndust af kvenfyrirlitningu, fötlunarfordómum og mannfyrirlitningu, og voru auðvitað fullkomlega óafsakanleg.”

Sigmundur segir sjálfan sig meginskotmarkið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður, eru ekki talin hafa brotið siðareglur. Þingmennirnir fjórir hafa lýst yfir vandlætingu sinni á vinnu og áliti siðanefndar og sagt hana starfa í pólitískum tilgangi. Sigmundur sagði í fréttum í gær að niðurstaðan sýndi hversu fáránleg vegferð Klausturmálið hafi verið.

„Til dæmis hvað sjálfan mig varðar. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að ég hafi verið meginskotmarkið í þessari aðgerð, en þrátt fyrir átta mánaða tilraunir, þar sem menn fóru á svig við lög og grundvallarreglur réttarríkisins tókst ekki annað en að sýna fram á að það hafi ekkert brot átt sér stað,” sagði Sigmundur í fréttum RÚV í gær. 

Viðbrögð þingmannanna komu mest á óvart

Katrín segir þetta benda til að þingmennirnir átti sig ekki á alvarleika málsins og iðrist ekki. 

„Það sem kemur mér kannski fyrst og fremst á óvart eru viðbrögð þessara þingmanna sem um ræðir. Að þeir virðast ekki enn skilja alvarleika sinna orða sem um var talað, skilja ekki að orð hafa afleiðingar og jafnvel reynt að snúa málinu upp í pólitískan spuna um að hér sé um aðför að þeim að ræða. Því það var auðvitað enginn annar sem talaði á þessari tilteknu krá en þessir þingmenn. Og því er ekki hægt að snúa upp í pólitíska aðför annarra að þeim,” segir Katrín. „Að það sé fremur haldið áfram að grafa sig ofan í holuna frekar en að líta upp úr henni og axla ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Því það voru engir aðrir en þessir aðilar sem sátu þetta kvöld og höfðu þessi orð uppi um nafngreindar, einkum, konur.” 

Vill ekki að brot á siðareglum hafi viðurlög

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í færslu á Facebook að hún teldi að brot á siðareglum ætti að hafa afleiðingar, til dæmis með því að viðkomandi þingmaður yrði þá sendur í launalaust leyfi. Katrín er ekki sammála því, en vonast til þess að Klausturmálið kalli á meiri umræðu um hlutverk siðareglna þingmanna. 

„Ég er ekki þeirrar skoðunar að brot á siðareglum kalli endilega á viðurlög, það eru ólíkir skólar innan þessa heims, ég er fremur þeirrar skoðunar að siðareglur eigi að þjóna til þess að bæta menningu frekar en þær kalli á sérstök viðurlög,” segir Katrín. 

Fréttastofa hefur hvorki náð í Gunnar Braga né Bergþór þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.