Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Viðbrögð formanna við þreifingum Pírata

16.10.2016 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna og Viðreisnar útiloka ekki samstarf við Pírata. Píratar héldu blaðamannafund fyrir hádegi þar sem þeir bjóða Vinstri grænum, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Viðreisn að hefja strax formlegar viðræður um ríkisstjórnarsamstarf. Píratar vilja þannig geta lagt fram drög að stjórnarsáttmála áður en þjóðin gengur til kosninga.

Píratar hafa sent formönnum flokkanna fjögurra bréf, þar sem þeim er boðið til funda um mögulegt samstarf. Flokkurinn hyggst svo skila skýrslu um þær viðræður til kjósenda 27. október, tveimur dögum fyrir kosningar. 

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafði ekki lesið bréfið frá Pírötum þegar fréttastofa hafði samband við hann. Hann segir að flokkurinn ætli að láta málefnin ráða og útiloki ekki samstarf við neina svo fremi að flokkurinn komi mikilvægum málefnum í gegn. Hann telur ólíklegt að Viðreisn fari í að mynda kosningabandalag núna. 

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir flokkinn opinn fyrir alls konar grósku í pólitík og finnst gott að fólk hittist og tali saman. „Við á Íslandi höfum ekki búið við þann pólitíska stöðugleika sem er forsenda fyrir því að fólk bjóði fram í blokkum, allavega ekki hingað til. Björt framtíð hefur ekki myndað sér fyrir fram ákveðna skoðun á því með hverjum við viljum vinna eða ekki, nema við höfum útilokað samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna.“

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist reiðubúin til að fara með opnum huga inn í þessa tilraun og sjá hvað setur. „Við höfum alltaf sagt að við viljum líta til stjórnarandstöðunnar ef við komumst í færi til að komast í ríkisstjórnarmyndun. Það er ágætt að nota þessa hugmynd til að undirbúa það ef til þess kæmi.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að flokkurinn hafi talað fyrir því allt þetta ár að stjórnarandstaðan skoði möguleika á að mynda kosningabandalag. 

Fréttastofa náði ekki sambandi við formenn stjórnarflokkanna fyrir hádegi. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV