Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Viðbragðsáætlun ekki fullbúin

22.07.2016 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarson - RÚV
Viðbragðsáætlun við landgöngu hvítabjarna á Íslandi er enn ekki fullmótuð, fjórum árum eftir að vinna við hana hófst.

Viðbragðsteymi um landgöngu hvítabjarna var skipað árið 2012 og átti að útbúa viðbragðsáætlun og kynna fyrir umhverfisráðuneytinu. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, fer fyrir teyminu. Hún segir að áætlunin sé aðeins til í drögum sem voru komin í núverandi mynd í byrjun árs 2013. 

„Þá taldi viðbragðshópurinn mjög mikilvægt til að við gætum klárað þessa vinnu að fá formlega afstöðu grænlenskra stjórnvalda vegna þess að við höfðum heyrt að Grænlendingar væru ekki tilbúnir til að taka við hvítabjörnum. Við óskuðum eftir því í bréfi til ráðuneytisins að við fengjum formlega staðfestingu á því hvort að grænlensk stjórnvöld væru tilbúin til að taka við hvítabjörnum,“ segir Kristín.

Það svar hefur enn ekki fengist. Því hefur enn ekki verið gengið frá viðbragðsáætluninni.

„Við höfum litið svo á að við gætum ekki kynnt þessa viðbragðsáætlun til ráðuneytisins fyrr en að hún væri orðin fullbúin. Það er vissulega bagalegt, við hefðum viljað klára þessa vinnu fyrir löngu síðan. Enda er hún frá okkar hendi nokkurn vegin tilbúin, þó það séu nokkrir lausir endar,“ segir hún.

Sá kafli áætlunarinnar sem fjallar um deyfingu hvítabjarna er þó ekki tilbúinn. Það er flókin aðgerð að deyfa hvítabjörn. Til þess þarf meðal annars að útvega lyfjaskammta og samhæfa aðgerðir dýralæknis, skyttu úr sérsveit og landhelgisgæslu. Þetta hefur ekki verið gert.

„Nei, fyrst þarf að klára þessa áætlun og vita hvað við eigum að gera við björninn. Ef hann fer ekki til Grænlands þá þurfum við að gera einhvers konar samninga við dýragarða erlendis og þá í kjölfarið að fara í það að þjálfa mannskap og kaupa þann búnað sem til þarf ef fjármagn fæst til þess,“ segir Kristín.