Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Viðamesta endurskoðun í áratugi

19.09.2016 - 08:58
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að í nýsamþykktum búvörusamningum felist mesta endurskoðun á íslensku landbúnaðarkerfi í áratugi. Jón segir að íslenskt landbúnaðarkerfi sé að mörgu leyti meingallað. Búvörusamningar voru samþykktir í síðustu viku með 19 atkvæðum stjórnarþingamanna en 16 sátu hjá.

Rætt var við Jón í Morgunvaktinni á Rás 1. Sagði Jón að mikilvægt væri að átta sig á því að verið sé að innleiða viðamestu endurskoðun á íslensku landbúnaðarkerfi sem gerð hafi verið á Íslandi í áratugi.

„Það má hér kannski vitna til sjömannanefndarinnar, sem var á seinni hluta níunda áratugarins á síðustu öld, en sennilega var það ekki eins viðamikið og það sem að við erum að innleiða núna. “

Jón sagði mikilvægt að gera breytingar í þágu neytenda og bænda: „Þannig að þetta kerfi er að mörgu leyti gallað, meingallað að mörgu leyti, og við þurfum að gera breytingar í þágu bænda og neytenda, sem eru endapunktarnir í þessu og á milli þeirra koma framleiðendur, verslun og þjónusta,“ segir Jón.