Víða slæmt aðgengi að brunahönum

07.06.2017 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talsvert virðist um það að brunahanar séu rangt upp settir eða aðgengi að þeim takmarkað. Það á við um einn brunahanann sem Slökkvilið Akureyrar notaði við stórbruna þar fyrir viku.

Sveitarfélögum er skylt að skaffa nægt vatn til slökkvistarfs og tryggja að brunahanar séu í lagi. Á þessu er víða misbrestur og um allt land eru dæmi um að þetta sé ekki í lagi.

Einn stúturinn út að vegg og annar við tengikassa

Það þarf til dæmis ekki að fara lengi um á Akureyri til að sjá dæmi um þetta. Við brunahana hjá nýlegu fjölbýlishúsi í Naustahverfi snýr aðal vatnsstúturinn beint í húsvegg og annar af tveimur minni stútunum er rétt við tengikassa. „Hérna á Akureyri er sveitarfélagið með samning við Norðurorku um vatnsveitukerfið,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar.

Takmarkað aðgengi við nýlegan stórbruna

Við Goðanes 12 á Akureyri varð stórbruni fyrir viku þegar bátasmiðjan Seigur brann. Við einn brunahanann í götunni er aðgengi ekki eins og það á að vera. „Þessi brunahani gæti verið betur staðsettur, eða ljósastaurinn ætti í þessu tilfelli ekki að vera svona nálægt. Við erum ekki með neinar beygjur á okkar lögnum,“ segir Ólafur. „En semsagt ef við myndum tengja slönguna hérna við þá yrðir erfitt að komast að við það. Og þegar er kominn fullur þrýstingur á hana þá myndi hún leggjast utan í staurinn og mynda hugsanlega hnykk sem tefur fyrir rennsli eftir slöngunni.“ En þetta kom ekki að sök í þetta sinn því hægt var að velja þann stút sem gaf allt vatnið úr þessum brunahana.

Eftirlitið í samstarfi við Norðurorku

Oft eru staurar og tengikassar settir upp eftir að vatnsveitan kom brunahananum fyrir og þá allt of nálægt. Og Ólafur segir það eiginlega borgaralega skyldu fólks að tilkynna um slíkt. „Ég tek það fram að við svosem erum ekki að keyra um bæinn og taka út brunahana að öllu jöfnu. En það eru semsagt starfsmenn Norðurorku sem gera það. Þeir skila okkur svo skýrslum um mælingar og annað slíkt.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi