Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Víða ófært en hríðarveðri að slota nyrðra

18.03.2020 - 01:50
Innlent · færð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Farið er að draga úr vindi og ofankomu á norðanverðu landinu, þar sem snjó hefur kyngt niður síðustu dægur. Vegir eru þó enn víða lokaðir eða ófærir vegna snjóa á Vestfjörðum og Norðurlandi, og á morgun er útlit fyrir drjúga snjókomu syðst á landinu og með suðausturströndinni segir á vef Veðurstofunnar, frá hádegi og fram á kvöld.

 

Vetrarfærð og lokaðir vegir á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi

Á Snæfellsnesi er þæfingur á Útnesvegi, ófært í Staðarsveit og Svínadal og Fróðárheiðin lokuð. Laxárdalsheiði er líka lokuð. Á Vestfjörðum er fært milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og milli Patreksfjarðar og Bíldudals en aðrir helstu vegir þar eru meira og minna ófærir og/eða lokaðir, samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

Á Norðurlandi er víða þæfingur, hálka eða þungfært og nokkuð um lokaða og ófæra vegi. Vatnsskarð er lokað og ófært er í Langadal. Vegurinn um Þverárfjall er lokaður vegna veðurs og óvissustig er í gildi við Siglufjarðarveg, sem er ófær frá Ketilási.

Í Ljósavatnsskarði kyngdi enn niður snjó klukkan tíu í kvöld og þar er ófært, rétt eins og í Víkurskarði og Ólafsfjarðarmúla. Heldur er farið að draga úr ofankomu víðast hvar á norðanverðu landinu og mun halda áfram að draga úr henni í nótt og í fyrramálið.

Hálka á Austurlandi en greiðfært með suðurströndinni - ennþá

Á Austurlandi og Austfjörðum er víða hálka, hálkublettir og jafnvel þæfingur á fjallvegum, en á Suðaustur- og Suðurlandi er hringvegurinn enn greiðfær. Það gæti þó breyst upp úr hádegi á morgun þegar snjóa tekur af krafti þar syðra. 

Veðurspáin er annars þessi til miðnættis annað kvöld:
 
Minnkandi norðaustanátt og snjókoma á norðanverðu landinu en
fremur hægur vindur sunnantil og úrkomulitið. Víða vægt frost.
Norðan 8-13 metrar á sekúndu á morgun og dálítil él, en austlægari og snjókoma
sunnanlands. Lægir annað kvöld, styttir upp að mestu og herðir á frosti.

Rólegt veður, bjart og kalt á fimmtudag. Síðan skiptist á annars vegar
hvöss sunnanátt með snjókomu, slyddu eða rigningu en hins vegar
kaldari suðvestanátt með éljum. Útlit fyrir talsverða hláku víða um land
á sunnudag.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV