Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Við tókum við listunum í góðri trú“

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi hafnar því að meðmælendalistar flokksins hafi verið falsaðir með vitund og vilja flokksforystunnar. „Það voru margir sem störfuðu að framboðinu og við tókum við listunum í góðri trú,“ segir oddvitinn, Geir Harðarson, í samtali við fréttastofu. Allir fjórir framboðslistar flokksins hafa verið dregnir til baka vegna athugasemda yfirkjörstjórna við falskar undirskriftir á meðmælendalistum.

Fréttastofa hefur hvorki náð í Guðmund Karl Þorleifsson, formann Íslensku þjóðfylkingarinnar, né Reyni Heiðarsson varaformann vegna málsins í dag. Jón Valur Jensson, sem hefur unnið fyrir flokkinn og talað máli hans, sagði við fréttastofu að þeir væru báðir erlendis. Hann sagðist koma af fjöllum þegar fréttastofa greindi honum frá því að framboðslistanir hefðu verið dregnir til baka og vísaði á Jens G. Jensson, oddvita flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður eða Geir Harðarson, oddvita í Suðvesturkjördæmi. Ekki náðist í Jens og Geir neitaði að veita viðtal vegna málsins umfram það sem segir hér að ofan.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV